Heltekin af pólitík frá 6 ára aldri

Mette yfirgefur kjörstað í gær.
Mette yfirgefur kjörstað í gær. AFP

Mette Frederiksen, leiðtogi danskra jafnaðarmanna, var á spítala með matareitrun í byrjun maí þegar Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra boðaði til kosninga. Mette hóf þar af leiðandi kosningabaráttu tveimur dögum á eftir kollegum sínum, en það virðist þó ekki hafa komið að sök því allt útlit er fyrir það að hún verði næsti forsætisráðherra Danmerkur og jafnframt sá yngsti.

Flokkur jafnaðarmanna hlaut tæplega 26% atkvæða og fær rauða kosningabandalagið 91 þingsæti af 179. Flokkur Rasmussen, Venstre, bætti við sig fylgi frá síðustu kosningum en það nægir núverandi meirihluta ekki þar sem Danski Þjóðarflokkurinn tapaði ríflega helmingi af fylgi sínu.

Vilja taka harðar á málum innflytjenda

Mál innflytjenda voru áberandi í aðdraganda kosninganna og hefur stefna jafnaðarmanna í þeim málaflokki vafalaust eflt stuðning við flokkinn en hann boðar nú töluvert harðari stefnu í málaflokknum en áður.

Þá sögðust jafnaðarmenn vilja auka opinber útgjöld, hækka skatta á fyrirtæki og hátekjufólk og hætta að hluta til við breytingar á lífeyrissjóðsmálum svo að Danir sem hafa verið á vinnumarkaði í 40 ár geti farið fyrr á eftirlaun.

Mette þykir hafa tekist vel til við að ráða úr …
Mette þykir hafa tekist vel til við að ráða úr innbyrðis ágreiningi í flokki Sósíaldemókrata. AFP

Frederiksen hyggst að öllum líkindum mynda minnihlutastjórn og fara á leit við stuðning hægri flokkanna í málum innflytjenda og annarra vinstri flokka í velferðarmálum.

Eftir því sem fram kemur í umfjöllun Politiken „rennur verkamannablóð“ um æðar leiðtogans unga sem er af fjórðu kynslóð jafnaðarmanan í fjölskyldu sinni. Hún þreytti frumraun sína á þingi aðeins 24 ára gömul og hefur síðan þá gengt embætti bæði atvinnu- og dómsmálaráðherra.

Árið 2015 tók hún síðan við stjórntaumunum í flokki jafnaðarmanna af Helle Thorning-Schmidt, fyrstu dönsku konunni til að gegna embætti forsætisráðherra, eftir ósigur flokksins í almennum kosningum.

Veit hvað hún þarf að gera

Í aðdraganda kosninganna í gær hefur Frederiksen ekki sagst vera tilbúin til að lofa neinu nema um málefni innflytjenda, en þar leggur hún áherslu á að hafa taumhald á hlutunum. Nokkuð annað var uppi á teningnum í byrjun þessa áratugar þegar henni þótti innflytjendastefna Danmerkur væri ein sú strangasta í Evrópu eftir því sem fram kemur á Politiken.

„Mette Frederiksen veit að ef hún ætlar að vera farsæl í Danmörku þarf hún að vera ströng á málefnum hælisleitenda og innflytjenda,“ sagði Ulf Hedetoft, stjórnmálaprófessor við Kaupmannahafnarháskóla við AFP.

Mette og faðir hennar Flemming.
Mette og faðir hennar Flemming. AFP

Þá sagði Flemming Juul Christiansen, stjórnmálafræðingur við Hróarskelduháskóla, að fyriráætlun Frederiksen um að mynda minnihlutastjórn fremur en að mynda stjórn með öðrum vinstri flokkum, auki trúverðugleika hennar því það sýni að „hún muni ekki gera málamiðlanir um málefni innflytjenda“.

Nýtur mikils stuðnings

Frederiksen er fráskilin tveggja barna móðir sem er fædd og uppalin í Álaborg. Henni er lýst sem vel skipulagðri og duglegri og samkvæmt gamalreynda sósíaldemókratanum Bjarne Laustsen, er hún fyrsti leiðtogi flokksins sem nýtur stuðnings allra flokksmanna frá árinu 1987 þegar Anker Jorgensen fór síðast fyrir honum.

Verði Frederiksen forsætisráðherra eins og allt útlit er fyrir, verður hún önnur konan í danskri sögu til að gegna embættinu. Þá yrði hún jafnframt yngsti forsætisráðherra þjóðarinnar, 41 árs að aldri.

Eftir 18 ár á þingi er Frederiksen þó engin nýgræðingur á sviði danskra stjórnmála þrátt fyrir ungan aldur og hefur hún raunar verið heltekin af stjórnmálum síðan hún var sex ára samkvæmt föður hennar, Flemming Frederiksen. Hún gekk til liðs við ungliðahreyfingu sósíaldemókrata 15 ára gömul og hefur sem formanni flokksins tekist að semja um sættir eftir mikið sundurlyndi innan hans á síðustu árum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert