Súdan vikið úr Afríkubandalaginu

Ákvörðun Afríkubandalagsins um að vísa Súdan úr bandalaginu var einróma …
Ákvörðun Afríkubandalagsins um að vísa Súdan úr bandalaginu var einróma og var tekin á neyðarfundi í Addis Ababa í dag. AFP

Súdan hefur verið vikið úr Afríkubandalaginu „tafarlaust vegna ofbeldis hersins gegn mótmælendum.“ Sambandið hótar frekari aðgerðum ef borgaraleg stjórn taki ekki við völdum í landinu. Ákvörðun bandalagsins var einróma og var tekin á neyðarfundi í Addis Ababa í dag.

Stjórnarandstaðan í Súdan fullyrðir að yfir 100 manns hafi látið lífið í aðgerðum stjórnvalda gegn mótmælendum í höfuðborginni Khartoum. Heilbrigðisráðuneytið segir  „ekki fleiri en 46“ hafa látið lífið í aðgerðunum.

Mótmælendur krefjast þess að borgaraleg stjórn taki við völdum af herforingjastjórninni sem tók yfir eftir að Omar al-Bashir hrökklaðist úr embætti forseta í apríl. Mótmælendur hafa komið sér fyrir á torgi við höfuðstöðvar hersins en aðgerðir hersins gegn mótmælendum hófust á mánudag og fara stigmagnandi.

Moussa Faki Mahamat, formaður framkvæmdastjórnar Afríkubandalagsins, krefst tafarlausrar og gegnsærrar rannsóknar á aðgerðum hersins sem hafa kostað tugi manna lífið.

Aniy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, er væntanlegur til Khartoum á morgun þar sem hann mun reyna að miðla málum milli hersins og stjórnarandstöðunnar.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert