„Það sem gerðist átti aldrei að gerast“

Í þessum mánuði eru fimmtíu ár liðin frá uppreisninni á …
Í þessum mánuði eru fimmtíu ár liðin frá uppreisninni á Stonewall Inn hinsegin barnum í Greenwich Village sem markaði þátta­skil í rétt­inda­bar­áttu hinseg­in fólks. AFP

James P. O’Neill, lögreglustjóri í New York hefur beðist afsökunar fyrir hönd lögreglunnar á framgöngu lögreglumanna í Stonewall-upp­reisn­inni í New York. Í þessum mánuði eru fimmtíu ár liðin frá uppreisninni á Stonewall Inn hinsegin barnum í Greenwich Village sem markaði þátta­skil í rétt­inda­bar­áttu hinseg­in fólks.

„Það væri ábyrgðarlaust að láta alþjóðlegan mánuð hinsegin fólks (e. World Pride month) líða hjá án þess að minnast á atburðina í Stonewall Inn í júní 1969,“ sagði O’Neill á opnum fundi í höfuðstöðvum lögreglunnar í New York í tengslum við hátíðarhöld vegna alþjóðlegs mánaðar hinsegin fólks.

James P. O’Neill, lögreglustjóri í New York.
James P. O’Neill, lögreglustjóri í New York. Ljósmynd/Twitter

„Það sem gerðist átti aldrei að gerast. Aðgerðir lögreglunnar voru rangar, svo ekki sé meira sagt,“ bætti hann við.

Uppreisnin hófst föstudagskvöldið 27. júní 1969. Lögreglan kom inn á staðinn, sem var svo sem ekkert óeðlilegt, en út brutust hörð slögsmál og sjö manns voru handteknir. Slagsmálin færðust þá út á götuna og fangar lögreglunnar voru frelsaðir. Lögreglumennirnir leituðu skjóls á barnum og óeirðarlögreglan sem var kölluð út réð ekki við ástandið. Samtakamáttur hinsegin samfélagsins var það öflugur. Uppreisnin stóð alla helgina og talið er að nær fjögur þúsund manns hafi tekið þátt í þeim. 

O’Neill heitir því að lögreglan í New York í dag, 2019, myndi aldrei bregðast við líkt og starfsbræður þeirra fyrir 50 árum. „Við tökum öllum New York-búum opnum örmum,“ sagði lögreglustjórinn. 

Frétt New York Times

mbl.is