Vara við ferðalögum til Bandaríkjanna

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína. Kínversk stjórnvöld …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína. Kínversk stjórnvöld eru nú sögð búa sig undir langvarandi viðskiptastríð við Bandaríkin. AFP

Kínversk yfirvöld vara nú landsmenn við ferðalögum til Bandaríkjanna í kjölfar tollastríðs landanna og segir CNN-fréttastofan nýjustu skilaboðin vera: Bandaríkin eru ill — ekki fara þangað.

Er kínverska ríkisfréttastofan sögð hafa aukið fréttaflutning sem beinist gegn Bandaríkjunum og segir CNN þetta enn eitt merki þess að stjórnvöld í Kína búi sig nú undir langvarandi viðskiptadeilu við bandarísk stjórnvöld.

Stjórn Donald Trump Bandaríkjaforseta tilkynnti fyrr í mánuðinum að tollar á yfir 200 milljarða dollara virði af varningi frá Kína yrðu hækkaðir úr 10% í 25%. Þá hótuðu bandarísk stjórnvöld því einnig að setja innflutningsbann á vörur frá kínverska fjarskiptafyrirtækinu Huawei.

Kínversk yfirvöld brugðust við með því að hækka tolla á um 60 milljarða dollara virði af bandarískum varningi og sögðu um „nauðsynlegar gagnaðgerðir“ að ræða.

Nú fyrr í vikunni varaði kínverska menninga- og ferðamálaráðuneytið Kínverja svo við þeim hættum sem fylgdu ferðalögum til Bandaríkjanna. Var þar vísað til fjölda nýlegra „skotárása, rána og þjófnaðar“.

Segir CNN kínverska utanríkisráðuneytið hafa, ásamt sendiráði og ræðismannsskrifstofum Kína í Bandaríkjunum, sent frá sér viðvörun til kínverskra ríkisborgara um „ítrekað áreiti“ bandarískra löggæslumanna í garð kínverskra borgara.

Skömmu áður hafði kínverska menntamálaráðuneytið þá varað kínverska námsmenn og fræðimenn við hættunni sem fylgdi því að nema í Bandaríkjunum þar sem erfiðleikar vegna vegabréfaáritana ykjust.

mbl.is