Telja erlent ríki að baki árásunum

Al-Marzoqah, er eitt sádi-arabísku olíuskipanna sem skemmdist illa í árásunum.
Al-Marzoqah, er eitt sádi-arabísku olíuskipanna sem skemmdist illa í árásunum. AFP

Erlent ríki var að öllum líkindum að baki árásunum sem gerðar voru á fjögur flutningaskip á Persaflóa í í síðasta mánuði. Báru árásirnar merki „margbrotinnar og samstilltrar skipulagningar,“ segir í umsögn Sameinuðu arabísku furstadæmanna fyrir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

BBC segir ráðamenn Sameinuðu arabísku furstadæmanna ekki tilgreina hverja þau telja standa að árásunum. Enginn mannskaði varð í árásunum, en eitt skip sem skráð er í landinu skemmdist í árásinni, sem og tvö sádi-arabísk skip og eitt skip sem er skráð í Noregi.

Bandarísk stjórnvöld hafa sakað Írana um að standa að árásunum, en stjórnvöld í Teheran hafa alfarið neitað slíku og hafa farið fram á rannsókn á málinu.

Árásirnar áttu sér stað 12. maí innan landhelgi Sameinuðu arabísku furstadæmanna, skammt úti fyrir Hormuz-sundi og hafa yfirvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sagt skipin fjögur hafa verið skotspón „hermdarverkaárása“.

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna sem lengi hefur verið talsmaður stjórnarskipta í Íran, sagði „augljóst“ að Íranar hafi staðið að baki árásunum. Íranska utanríkisráðuneytið hefur hins vegar sagt þær ásakanir „fáránlegar“.

Í rannsókninni kemur fram að mikil kunnátta liggi að baki árásunum, þá hafi árásarmennirnir þurft að vera færir um að stýra hraðskreiðum bátum sem gátu siglt inn í landhelgi Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Í kjölfarið hafi svo kafarar verið notaðir til að festa litlar sprengjur á skipin sem ætlaðar voru til að valda skemmdum án þess að mikil sprenging yrði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert