Hunt segir ESB tilbúið að semja á ný

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Breta, fullyrðir að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, …
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Breta, fullyrðir að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi gefið í skyn að Evrópusambandið sé tilbúið að endursemja um útgöngusamning Breta úr sambandinu. AFP

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Breta, segir að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi gefið í skyn að Evrópusambandið sé tilbúið að endursemja um útgöngusamning Breta úr sambandinu.

Hunt, sem er einn fjölmarga flokksmanna sem sækjast eftir að fylla í skarð Theresu May sem leiðtogi Íhaldsflokksins, segist hafa rætt við Merkel í vikunni þegar þau voru bæði viðstödd minningarathöfn í tilefni af því að 75 ár eru liðin frá innrásarinnar í Normandí. Hunt segir Merkel vera sannfærða að mögulegt sé að breyta útgöngusamningnum sem May gekk frá.

Nýr forsætisráðherra, nýjar lausnir

„Hún sagði að með nýjum forsætisráðherra væri hægt að skoða nýjar lausnir sem boðið er upp á,“ sagði Hunt í samtali við Sky-fréttastofuna í kvöld. Hunt er sannfærður að ef bresk stjórnvöld nálgist viðræðurnar með réttum hætti verði forsvarsmenn Evrópusambandsins viljugir til að endurskoða Brexit-samninginn.

May hætt­i form­lega sem leiðtogi Íhalds­flokks­ins á föstudaginn en hún mun hins veg­ar sitja áfram sem for­sæt­is­ráðherra þar til eft­ir­maður henn­ar hef­ur verið val­inn.

Hunt gaf ekki til kynna um hvaða hluta Brexit-samningsins væri mögulegt að endurskoða, það er sjálfan útgöngusamninginn sem er lagalega bindandi, sem leiðtogar ESB hafa ítrekað sagt að ekki sé hægt að endursemja um, eða pólitíska yfirlýsingu um framtíðarsamskipti Bretlands og ESB.

Brexit-samningurinn var samþykktur af ESB í fyrra en hefur þrívegis verið hafnað á breska þinginu. Útgöngunni hefur því verið frestað í tvígang og er núverandi frestur í gildi til 31. október næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert