Fjöldamótmæli Í Hong Kong vegna framsalsfrumvarps

Mótmælendur í Hong Kong.
Mótmælendur í Hong Kong. AFP

Tug þúsundir ganga um götur Hong Kong í dag til að mótmæla lagafrumvarpi sem lagt hefur verið fram og mótmælendur telja að muni gefa stjórnvöldum í Kína kost á að sækja gegn pólitískum andstæðingum sínum á svæðinu. Heimilar frumvarpið framsal brotamanna frá Hong Kong til meginlands Kína.

Stuðningsmenn frumvarpsins segja að stjórnvöld hafi sett inn ýmsar varnir fyrir íbúa landsins þannig að enginn verði framseldur á grundvelli trúar- eða stjórnmálaskoðana. Hins vegar sé verið að horfa til alvarlegra mála eins og nauðgana og morða. Verður ákvörðun um framsal, samkvæmt frumvarpinu, tekin í hverju og einu máli.

Mótmælendur klæddir í hvítt með mótmælaspjöld þar sem lagafrumvarpinu er …
Mótmælendur klæddir í hvítt með mótmælaspjöld þar sem lagafrumvarpinu er mótmælt. AFP

Gagnrýnendur segja hins vegar að Hong Kong gæti með lögunum orðið berskjalda gegn ófullkomnu réttarkerfi Kína og að það myndi hafa slæm áhrif á réttarkerfi borgarinnar.

Mótmælendur klæðast hvítu og halda fjölmargir á skiltum þar sem þeir gagnrýna frumvarpið og segja það jafnvel vera endalok Hong Kong eins og það er í dag.

Skilaboð mótmælenda eru nokkuð skýr.
Skilaboð mótmælenda eru nokkuð skýr. AFP

Hong Kong var áður undir breskri stjórn, en frá 1997 hefur landið verið hluti af Kína, þó undir meginreglunni „eitt land, tvö kerfi.“ Hong Kong hefur gert framsalssamninga við 20 ríki, meðal annars Bretland og Bandaríkin, en enginn slíkur samningur er í gangi við Kína, þrátt fyrir viðræður þess efnis undanfarna tvo áratugi.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert