Tíu vilja í Downing-stræti 10

Níu af þeim tíu sem fengu framboð til embættis formanns …
Níu af þeim tíu sem fengu framboð til embættis formanns breska Íhaldsflokksins samþykkt. Efri röð frá vinstri: Boris Johson, Andrea Leadsom, Michael Gove, Esther McVey, Jeremy Hunt, Rory Stewart, Sajid Javid, Matt Hancock og Dominic Raab. Á samsettu myndina vantar Mark Harper, fyrr­ver­andi ráðherra. AFP

Öllum tíu frambjóðendum Íhaldsflokksins til embættis formanns flokksins tókst að safna gildum meðmælum frá átta þingmönnum flokksins. Skilafrestur var til klukkan 16 í dag og voru öll framboðin samþykkt.

Í morgun var útlit fyrir að ellefu flokksmenn myndu skila inn framboði en Sam Gyimah, eini Íhaldsmaðurinn sem lýst hafði áhuga á leiðtogastöðunni sem er hlynntur nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit, hefur dregið framboð sitt til baka. Sagði hann ekki nægan tíma til stefnu til að afla nægilegs stuðning.

Fimm ráðherrar, tvær konur og átta karlar munu etja kappi um hver verður næsti leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands. Theresa May hætt­i form­lega sem leiðtogi Íhalds­flokks­ins á föstu­dag­inn en hún mun hins veg­ar sitja áfram sem for­sæt­is­ráðherra þar til eft­ir­maður henn­ar hef­ur verið val­inn.

Valið stendur á milli:

  • Michael Gove, umhverfisráðherra.
  • Matt Hancock, heilbrigðisráðherra.
  • Mark Harper, fyrrverandi ráðherra.
  • Jeremy Hunt, utanríkisráðherra.
  • Sajid Javid, innanríkisráðherra.
  • Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra.
  • Andrea Leadsom, fyrr­ver­andi leiðtogi neðri deild­ar breska þings­ins
  • Esther McVey, fyrr­ver­andi vinnu­málaráðherra.
  • Dominic Raab, fyrrverandi ráðherra Brexit-mála.
  • Rory Stewart, Rory Stew­art ráðherra þró­un­ar­mála.

Á fimmtudag greiða allir þingmenn flokksins atkvæði um þau sem skila inn gildu framboði í dag. Þau sem fá 17 atkvæði eða fleiri fara áfram í næstu umferð, sem fram fer í næstu viku. Í þeirri umferð þarf 33 atkvæði til að eiga möguleika á formannsembættinu. Þannig gengur það þar til tveir frambjóðendur standa eftir.

130 þúsund eru skráðir í Íhaldsflokkinn og hafa allir kosningarétt til að kjósa á milli tveggja frambjóðenda sem standa eftir og hefst sú atkvæðagreiðsla 22. júní. Mánuði síðar tekur nýr leiðtogi við embætti formanns breska Íhaldsflokksins.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert