Barnaníðingar í Alabama geltir

Lög sem þessi voru þegar í gildi í sex öðrum …
Lög sem þessi voru þegar í gildi í sex öðrum ríkjum Bandaríkjanna, þar á meðal í Lousiana og Flórída. AFP

Barnaníðingum sem fá reynslulausn úr fangelsum Alabama-ríkis í Bandaríkjunum verður gert að gangast undir geldingu með lyfjum samkvæmt nýjum lögum sem ríkisstjóri Alabama undirritaði í gær.

Samkvæmt lögunum verður þeim sem gerst hafa sekir um kynferðisbrot gegn börnum undir 13 ára aldri gert að hefja lyfjameðferð, sem þeir þurfa sjálfir að leggja út fyrir, mánuði áður en reynslulausn þeirra hefst, og kveður dómur svo á um hvenær brotamaðurinn má hætta lyfjameðferðinni.

Segja tilraunir á mannfólki ganga gegn stjórnarskrá

Lög sem þessi voru þegar í gildi í sex öðrum ríkjum Bandaríkjanna, þar á meðal í Lousiana og Flórída, en lyf þau sem níðingunum er gert að taka inn eiga að draga úr kynhvöt þeirra.

Lögunum hefur verið mótmælt af mannréttindasamtökum í Alabama, sem segja að virkni lyfjanna hafi ekki verið sönnuð og að tilraunir á mannfólki gangi gegn bandarískri stjórnarskrá.

Bandaríkin eru ekki eina landið þar sem barnaníðingar eru geltir með þessum hætti, en samkvæmt frétt BBC eru svipuð lög í gildi í Indónesíu og Suður-Kóreu.

mbl.is