Heimili Bretadrottningar sett á sölu

Villa Guardamangia er eina fasteignin utan Bretlands sem Elísabet Bretadrottning …
Villa Guardamangia er eina fasteignin utan Bretlands sem Elísabet Bretadrottning hefur nokkurn tímann kallað heimili sitt. mbl.is/AFP

Glæsisetur á Möltu, sem er eina fasteignin utan Bretlands sem Elísabet Bretadrottning hefur nokkurn tímann kallað heimili sitt, hefur nú verið sett á sölu. Verðmiðinn er þó ekki á allra færi, en farið er fram á litlar sex milljónir evra (um 845 milljónir kr.) fyrir húsið sem nefnist Villa Guardamangia.

Elísabet bjó í glæsisetrinu, sem er í útjaðri Valetta, höfuðborgar Möltu, á árabilinu 1949-1951. Drottningin var þá enn prinsessa og nýgift Filippusi prinsi, sem þjónaði með breska sjóhernum á Möltu. Frændi Filippusar leigði húsið á þeim tíma og er drottningin sögð eiga ljúfar minningar um dvölina á Möltu.

BBC segir bygginguna, sem er friðuð, þó mega muna fífil sinn fegurri enda hafi húsið látið töluvert á sjá undanfarna áratugi.

Elísabet Bretadrottning er sögð eiga ljúfar minningar um búskap þeirra …
Elísabet Bretadrottning er sögð eiga ljúfar minningar um búskap þeirra Filippusar í Villa Guardamangia á Möltu. Ljósmynd/Wikipedia.org
mbl.is