Líkindi með málum Nixons og Trumps

John Dean meðan á vitnisburðinum stóð.
John Dean meðan á vitnisburðinum stóð. AFP

John Dean, einn af lögmönnum Hvíta hússins sem áttu þátt í því að Richard Nixon sagði af sér sem forseti Bandaríkjanna, sagði bandaríska þinginu að mikil líkindi væru með ólöglegu athæfi Nixons og meintri hindrun réttvísinnar af hálfu núverandi forseta, Donalds Trump.

Dean sagði þingnefnd Hvíta hússins að líkindi væru með skýrslu Roberts Muellers, sérstaks saksóknara, þar sem greint er frá tíu mögulegum tilfellum sem tengjast hindrun réttvísinnar, og hinu fræga „vegakorti“ sem saksóknarinn Leon Jaworski afhenti bandaríska þinginu árið 1974. Í framhaldinu var Nixon kærður fyrir embættisbrot.

AFP

„Á margan hátt hefur Mueller-skýrslan sömu þýðingu fyrir Trump forseta og hið svokallað Watergate-vegakort hafði fyrir Richard Nixon,“ sagði Dean, sem er áttræður.

Eitt af því sem hann nefnir er aðkoma Don McGahn, fyrrverandi ráðgjafa Hvíta hússins, að meintri hindrun réttvísinnar af hálfu Trump. Hvíta húsið vill ekki að McGahn beri vitni fyrir þingnefnd vegna málsins.

Dean var helsti lögfræðingur Nixons í Hvíta húsinu árið 1972 þegar forsetinn naut aðstoðar hans við að hylma yfir vegna innbrots starfsfólks hans í skrifstofuhúsnæði demókrata í Watergate-byggingunni.

Upp komst um athæfið og Dean snerist gegn Nixon og greindi frá aðild sinni að lögbrotinu. Dean var dæmdur í eins til fjögurra ára fangelsi en var látinn laus eftir fjóra mánuði.

Í tísti sínu á Twitter gerði Trump lítið úr Dean og sagði hann handbendi sjónvarpsstöðvarinnar CNN.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP
mbl.is