Lokuðu skipið inni í höfninni í sex tíma

Aðgerðarsinnar „Smash Cruiseshit“ hópsins töfðu för skemmtiferðaskipsins með bátum og …
Aðgerðarsinnar „Smash Cruiseshit“ hópsins töfðu för skemmtiferðaskipsins með bátum og klifurbúnaði, sem þeir notuðu m.a. til að komast um borð í skipið. AFP

Aðgerðarsinnar í loftslagsmálum notuðu báta og klifurbúnað til að loka skemmtiferðaskip inni í þýskri höfn í sex klukkutíma og vildu með því mótmæla útblæstri skipsins á koltvísýringi.

Þýska lögreglan greindi frá þessu og sagði um 50 manna hóp mótmælenda með skilti sem á stóð „Skemmtisiglingar drepa loftslagið“ hafa tafið brottför skipsins  Zuiderdam, sem skipafélagið Holland America Line gerir út, frá höfninni í Kiel á sunnudag.

Skipinu tókst svo loks að yfirgefa höfnina og halda áleiðis til Kaupmannahafnar um tíuleytið um kvöldið, eftir að lögregla hafði handtekið tímabundið 46 mótmælendur. Höfðu nokkrir þeirra þá klifrað um borð í skipið og upp krana sem stóð við höfnina.

Segir AFP-fréttaveitan aðgerðarsinnana hafa verið að mótmæla „hörmulegum afleiðingum skemmtisiglinga á nærumhverfi og á alþjóða vísu“, sem og því sem þeir sögðu vera slæmar vinnuaðstæður starfsfólks skemmtiferðaskipsins.

Hópurinn kallar sig „Smash Cruiseshit“ og sagði á Twitter að skemmtiferðaskip keyrð áfram af svartolíu ættu þátt í hlýnun jarðar og framleiðslu sótagna sem setjist á ísinn á Norðurheimsskauti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert