Pompeo lofar að beita sér gegn Corbyn

Mike Pompeo á fundi í Hörpu í febrúar.
Mike Pompeo á fundi í Hörpu í febrúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist munu beita sér gegn því að Jerermy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, komist til valda í Bretlandi og berjast gegn hvers kyns aðgerðum sem hann gæti tekið „gegn breskum gyðingum“. Þetta kemur fram í upptökum af fundi Pompeo með leiðtogum gyðinga í New York, sem lekið var til Washington Post.

Hinar nýju upptökur koma í kjölfar yfirlýsinga Donalds Trump þess efnis að Boris Johnson, leiðtogaefni íhaldsmanna, og Nigel Farage, formaður Brexit-flokksins, væru vel til þess fallnir að taka við embætti forsætisráðherra.

Á fundinum var Pompeo spurður hvort hann væri reiðubúinn til að vinna með samtökunum að aðgerðum ef ske kynni að Corbyn kæmist til valda og líf gyðinga í Bretlandi breyttist til hins verra. 

„Þið megið vita að við [bandarísk stjórnvöld] munum ekki bíða með að hefja mótspyrnu þar til eftir að hann gerir þessa hluti. Það er of áhættusamt og of erfitt þegar það er farið af stað,“ svaraði Pompeo án þess að fara nánar út í það hvað Jeremy Corbyn myndi mögulega gera á hlut gyðinga.

Jeremy Corbyn hélt ræðu á mótmælafundi vegna opinberrar heimsóknar Donalds …
Jeremy Corbyn hélt ræðu á mótmælafundi vegna opinberrar heimsóknar Donalds Trump Bandaríkjaforseta til Bretlands í síðustu viku. AFP

Sem formaður Verkamannaflokksins hefur Corbyn reglulega verið gagnrýndur fyrir að beita sér seint og illa gegn ásökunum um andsemítisma innan flokksins. Í febrúar sögðu níu þingmenn skilið við flokkinn og sögðu sumir þeirra getuleysi flokksforystunnar til að taka á andsemítisma vera ástæðu þess.

Í síðasta mánuði tilkynnti breska mannréttindaráðið (Equality and Human Rights Commission) að það hygðist hefja rannsókn á því hvort gyðingar hafi sætt ólöglegri mismunun eða árásum innan flokksins fyrir það eitt að vera gyðingatrúar. Gaf Verkamannaflokkurinn það út að hann yrði að fullu samvinnufús rannsakendum.

Óásættanleg afskipti af bresku lýðræði

Stuðningsmenn Corbyns hafa haldið því fram að ásakanir um andsemítisma séu undan pólitískum rifjum runnar og stafi af langvarandi stuðningi formannsins við mannréttindi íbúa Palestínu og gagnrýni hans á stefnu og mannréttindabrot ísraelskra stjórnvalda auk vestrænnar heimsvaldastefnu.

Í bréfi til Washington Post segir talsmaður Verkamannaflokksins að flokkurinn sé „fullur samstarfsvilja þegar kemur að stuðningi og vernd við samfélag gyðinga og [leggist] harðlega gegn hvers kyns andsemítisma“.

Segir hann einnig að flokkurinn mótmæli „óviðeigandi íhlutun“ Pompeo í lýðræðislegt ferli í Bretlandi. „Tilraunir Trump forseta og embættismanna hans til að ráða því hver næsti forsætisráðherra Breta verður, eru algjörlega óboðleg afskipti af bresku lýðræði.“

mbl.is