Þingið geti höfðað mál gegn ráðherrum

Donald Trump Bandaríkjaforseti. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag að gefa …
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag að gefa þinginu fulla heimild til að höfða mál gegn þeim ráðherrum og ráðgjöfum stjórnarinnar sem hunsa vitnastefnur þingsins. AFP

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings, sem demókratar eru með meirihluta í, samþykkti í dag að gefa þinginu fulla heimild til að höfða mál gegn þeim ráðherrum og ráðgjöfum stjórnar Donald Trumps Bandaríkjaforseta sem hunsa vitnastefnur þingsins.

Reuters-fréttaveitan greinir frá þessu og segir heimildina m.a. taka til Don McGahn, fyrrverandi ráðgjafa í Hvíta húsinu. Heimildin gerir dómsmálanefnd þingsins kleift að fara þess á leit við dómara að opinberum starfsmönnum verði skyldað að sýna samstarfsvilja varðandi rannsóknir nefndarinnar. Með þessu móti eigi dómsmálanefndin til að mynda að geta krafist þess að fá óritskoðaða útgáfu af rannsóknaskýrslu Robert Muellers sérstaks saksóknara FBI af afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016.

„Þetta hefur aldrei verið gert áður, en við höfum heldur aldrei upplifað að ríkisstjórnin hunsi allar upplýsingakröfur þingsins,“ sagði Jerrold Nadler formaður nefndarinnar. „Við verðum að fara fyrir rétt til að fá vitnastefnunum framfylgt.“

McGahn var lykilvitni í rannsókn Muellers. Í síðasta mánuði neitaði hann hins vegar að verða við vitnastefnu fulltrúadeildarinnar eftir að Hvíta húsið skipaði honum að sýna dómsmálanefndinni ekki samstarfsvilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert