Fólk vill ekki borga fyrir fréttir

Í Noregi og Svíþjóð greiðir gríðarlega hátt hlutfall fólks fyrir …
Í Noregi og Svíþjóð greiðir gríðarlega hátt hlutfall fólks fyrir fréttir. Á Íslandi er sú þróun ekki komin eins langt.

Sífellt færri treysta fjölmiðlum til þess að flytja réttar fréttir á heimsvísu, samkvæmt nýrri ársskýrslu Reuters. Traustið hefur farið niður um tvö prósentustig á milli ára, úr 44% í 42%. Það er mjög mismunandi á milli landa, í Brasilíu kváðust 85% óttast um hvað væri satt og hvað logið af því sem þau lesa á netinu en aðeins 38% svöruðu hinu sama í Þýskalandi.

Á sama tíma er enn þá erfitt fyrir fjölmiðla að fá lesendur sína til að borga fyrir þjónustuna. Það sem helst virðist virka í þeim efnum er að lesendur lendi á „veggjum“ inni á vefsíðum fjölmiðlanna, þar sem þeim er sagt að vilji þeir lesa áfram þurfi þeir að borga fyrir aðgang að síðunni. 70% af Norðmönnum sögðust lenda í slíku vikulega sem kann að skýra það að hluta, að þar er hæsta hlutfall netáskrifta í heiminum.

Það er af ýmsu að taka í nýrri ársskýrslu Reuters um fjölmiðlun á netinu. Niðurstöður rannsóknarinnar eru byggðar á spurningum sem lagðar voru fyrir fjölda manns í 40 löndum. Ísland er ekki meðal landanna en önnur Norðurlönd eru það og þau skora hátt á ýmsum sviðum.

Bygging fréttaveitunnar Reuters í London. Reuters gerir könnun á stöðu …
Bygging fréttaveitunnar Reuters í London. Reuters gerir könnun á stöðu netmiðla ár hvert. Ljósmynd/Wikimedia

Hvergi í heiminum eru fleiri netáskrifendur að fréttum en í Noregi, eins og segir. Þar eru 34% fólks að borga fyrir einhvers konar fréttir, hvort sem það er á netinu eða í prenti. Frá árinu 2016 hefur fjölgað í þessum hópi um 7%, úr 27% þá. Svipuð fjölgun varð í Svíþjóð á þessum tíma, upp í 27% nú. Og í Bandaríkjunum tóku greiðslur til fjölmiðla stökk í kjölfar forsetakjörs Donald Trump, úr 9% fólks í 16%, þar sem hlutfallið hefur haldist síðan.

Fjölgun áskrifta hefur átt sér stað í gulu pressunni í Noregi og Svíþjóð ekki síður en virtum fjölmiðlum. Þannig greiddu fleiri fyrir Aftonbladet, gula pressu, en Dagens Nyheter í Svíþjóð og fleiri fyrir Verdens Gang í Noregi en fyrir Aftenposten. Í Bandaríkjunum hefur áskriftum aftur á móti fyrst og fremst fjölgað í virtari blöðum eins og The New York Times og Washington Post.

Á Norðurlöndunum eru lægstu hlutföll þeirra sem telja að fréttaflutningur sé of neikvæður. 39% af öllum telja svo vera. 59% telja fréttir of neikvæðar í Grikklandi en aðeins 23% í Finnlandi.

Mikill meirihluti les fréttir í farsíma

66% af þeim sem lesa fréttir gera það í snjallsímanum. Það hlutfall hækkar sífellt og veldur því meðal annars að umferðin um fréttasafnveitur eins og Apple News er orðin meiri, 27% af þeim sem skoða fréttir í síma í BNA, en hjá rótgrónum miðlum eins og Washington Post.

Tölfræðin segir að þú sért að lesa þessa frétt í …
Tölfræðin segir að þú sért að lesa þessa frétt í símanum þínum. AFP

Það sem einkum er breytt í þessu landslagi farsímafrétta er að samskipti fólks eru að færast í auknum mæli inn á einkahópa á WhatsApp, Instagram eða Messenger. Þar er verið að deila mjög miklu af fréttum, sem áður var deilt opinberlega á Facebook sjálfri. Facebook sjálf gegnir samt enn mikilvægasta hlutverkinu í miðlun frétta á netinu og þar leika einnig sérstakir umræðuhópar mikið hlutverk, eins og Stjórnmálaspjallið eða slíkt. Nefnt er í rannsókninni að 27% af umferð frétta fer um slíka hópa í Tyrklandi, þannig að gera má ráð fyrir að umræða um Ísland hafi orðið nokkur síðustu daga í hópunum.

Menntaðir tvöfalt líklegri til að borga fyrir fréttir

Í Bandaríkjunum borguðu 16% landsmanna fyrir aðgang að einhverjum fréttum í fyrra. Athyglisvert er að kanna hvaða hópar eru að kaupa fréttir. Háskólamenntaðir eru tvöfalt líklegri en aðrir til að borga fyrir fréttir. Efnaðir hópar eru þrefalt líklegri en aðrir til að borga. Og einstaklingar sem hafa verulegra hagsmuna að gæta eru fimmfalt líklegri en aðrir til að borga fyrir fréttir.

New York Times er með þrjár milljónir netáskrifenda. Áskriftum stórfjölgaði …
New York Times er með þrjár milljónir netáskrifenda. Áskriftum stórfjölgaði í kjölfar kjörs Donald Trump í embætti forseta. AFP

Í niðurstöðum rannsóknar Reuters segir að ljóst sé að ekkert stefni í að meirihluti ungra fréttaneytenda muni vilja borga fyrir fréttir á netinu, jafnvel þó að margir þeirra segist hafa áhyggjur af upplýsingaóreiðu á netinu. „Ungir neytendur vilja ekki gefa upp á bátinn hraðan, átakalausan og helst ókeypis aðgang að stórum skala ólíkra radda og skoðana. Þeir vilja ekki hverfa aftur til þess hvernig fréttir voru fluttar hér áður fyrr,“ segir í skýrslunni.

Reuters spáir því að fréttir verði áfram að uppistöðu fríar og muni reiða sig áfram á auglýsingar í miklum mæli, sem áfram verði vandkvæðum bundið vegna þess heljartaks sem tæknirisar hafa á þeim markaði, Facebook, Google, YouTube.

mbl.is