Mótmæli magnast í Hong Kong

Fyrirtæki hafa mörg hver lokað dyrum sínum til að gefa …
Fyrirtæki hafa mörg hver lokað dyrum sínum til að gefa starfsfólki kost á að mótmæla frumvarpinu. AFP

Lögregla í Hong Kong hefur í dag skotið gúmmíkúlum og úðað táragasi að mótmælendum. Tug­ir þúsunda hafa komið saman þar í landi til að mótmæla áform­um stjórn­valda um að heim­ila framsal brota­manna frá sjálfstjórnarsvæðinu til meg­in­lands Kína. Að sögn BBC hafa mótmælin hingað til verið friðsæl að mestu, en nú virðist farið að hitna í kolunum.

Hið nýja frumvarp er lagt fram af stjórnvöldum í Hong Kong, en nýtur mikils stuðnings kínverskra stjórnvalda. Búist er við að frumvarpið verði samþykkt í atkvæðagreiðslu á löggjafarþingi Hong Kong 20. júní.

Verði það samþykkt munu stjórnvöld í Hong Kong geta framselt þá sem ákærðir eru fyrir alvarleg brot, svo sem morð og nauðgun, til Kína, Taívan og Makaó, sem einnig er sjálfstjórnarhérað og tilheyrði Portúgölum til 1999. Upphaflega stóð til að skattsvikarar gætu einnig verið framseldir, en það ákvæði var fjarlægt úr frumvarpinu af ótta við áhrif þess á viðskiptaumhverfi Hong Kong. 

Að sögn stjórnvalda eru lögin sett vegna nýlegs máls er 20 ára gamall íbúi Hong Kong drap kærustu sína í fríi í Taívan og flúði aftur til Hong Kong. Taívönsk stjórnvöld óskuðu eftir því að maðurinn yrði framseldur þangað, en stjórnvöldum í Hong Kong var ekki heimilt að gera svo.

Hiti hefur færst í mótmælin og viðbúnaður lögreglu verið aukinn. …
Hiti hefur færst í mótmælin og viðbúnaður lögreglu verið aukinn. Lögreglumenn hafa í dag skotið gúmmíkúlum að mótmælendum. AFP

Aðför að mannréttindum sjálfstjórnarhéraðsins

Gagnrýnendur hafa sagt að lögin geti orðið til þess að íbúar Hong Kong þurfi að sæta pyntingum, tilhæfulausu gæsluvarðhaldi og þvinguðum játningum á meginlandinu, þar sem stjórnvöld eru seint þekkt fyrir virðingu fyrir mannréttindum og lögum réttarríkisins.

Heimastjórnin í Hong Kong hefur þó heitið því að lagalegir fyrirvarar muni sjá til þess að mannréttinda verði gætt.

Mótmælendur óttast margir hverjir að Kínastjórn muni senda löggæslulið frá meginlandinu yfir til Hong Kong, en í samtali við BBC segir Geng Shuang, yfirmaður á upplýsingasviði kínverska utanríkisráðuneytisins, að ekkert sé til í þeim sögusögnum. Þær séu falsfréttir og þeim ætlað að blekkja fólk til að magna upp óeirðirnar.

Yfir 100 fyrirtæki hafa í dag lokað til að gefa starfsfólki kost á að taka þátt í mótmælunum og þá hafa um 4.000 kennarar gengið út til að mótmæla. Valdamikil hagsmunasamtök atvinnulífsins óttast að frumvarpið komi til með að draga úr samkeppnishæfni Hong Kong, en héraðið hefur haft sjálfstjórn frá því Bretar afhentu svæðið Kínverjum árið 1997.

Samið var um að Hong Kong héldi sjálfsstjórn í 50 ár hið minnsta frá þeim tímapunkti. Carrie Lam, héraðsstjóri Hong Kong sem þykir höll undir Kínastjórnvöld, hefur sjálf sagt að hún telji það samkomulag sagnfræðirit sem hafi ekkert gildi. Virðist þá engu skipta þótt Bretar hafi staðið við 99 ára gamalt samkomulag um að afhenda Kínverjum Hong Kong árið 1997, sem skrifað var undir 9. júní 1898.

Carrie Lam, héraðsstjóri í Hong Kong, þykir höll undir kínversk …
Carrie Lam, héraðsstjóri í Hong Kong, þykir höll undir kínversk stjórnvöld. Hún þarf nú að horfa upp á stærstu mótmælin í sjálfstjórnarhéraðinu á þeim 22 árum sem liðin eru frá því það komst undir kínversk völd. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert