Samningslaust Brexit enn möguleiki

Boris Johnson tilkynnti formlega framboð sitt til laiðtoga Íhaldsflokksins í …
Boris Johnson tilkynnti formlega framboð sitt til laiðtoga Íhaldsflokksins í gær og lofaði að Bretland myndi yfirgefa ESB í seinasta lagi 31. október. AFP

Tilraun þingmanna sem mótfallnir eru úrsögn Breta úr Evrópusambandinu án samnings töpuðu atkvæðagreiðslu um að taka dagskrárvaldið af meirihlutanum í breska þinginu í dag. Vildu þeir að tillaga um að Bretland myndi ekki yfirgefa ESB án samnings yrði lögð fyrir þingið 25. júní.

Munaði fáum þingmönnum milli fylkinga og greiddu 309 þingmenn atkvæði gegn tillögunni, en 298 með henni, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Lofar Brexit ekki seinna en október

Boris Johnson, þingmaður Íhaldsflokksins, tilkynnti formlega framboð sitt til leiðtoga flokksins í gær og hefur hann verið talinn sigurstranglegasti frambjóðandinn til þessa. Í ræðu sinni lofaði hann því að undir hans forystu myndu Bretar ganga úr ESB ekki seinna en 31. október. „Frestun þýðir ósigur.“

Jafnframt sagði hann samningslaust Brexit ekki æskilegt, en að það væri nauðsynlegt að vera undir það búinn að það yrði raunin. Þess vegna væri ekki annað í stöðunni en að hefja undirbúning að slíku.

Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, tilkynnti framboð sitt til leiðtoga flokksins í dag og hefur vakið athygli að Ruth Davidson, leiðtogi Íhaldsflokksins í Skotlandi, hafi kynnt Javid á svið. Hann hefur sömu afstöðu og Johnson til Brexit.

Sajid Javid.
Sajid Javid. AFP
mbl.is