„Þú stalst barnæsku minni“

Gömul mynd af knattspyrnuþjálfaranum Bob Higgins ásamt ungum leikmanni.
Gömul mynd af knattspyrnuþjálfaranum Bob Higgins ásamt ungum leikmanni.

Fyrrverandi unglingaþjálfari hjá ensku knattspyrnuliðunum Southampton og Peterborough hefur verið dæmdur í 24 ára og þriggja mánaða fangelsi fyrir að brjóta kynferðislega gegn 24 ungum knattspyrnumönnum á 25 ára tímabili.

Guardian greinir frá því að þjálfarinn, Bob Higgins, hafi ekki sýnt neinar tilfinningar er dómur yfir honum var kveðinn upp. Dómarinn Peter Crabtree sagði að Higgins væri „slóttugur og stjórnsamur“ kynferðisafbrotamaður sem hefði misnotað stöðu sína sem virtur knattspyrnuþjálfari og verið átrúnaðargoð ungra leikmanna, sem allir þráðu það að verða atvinnumenn í íþróttinni.

Samkvæmt frétt Guardian lagði dómarinn áherslu á það að Higgins, sem er orðinn 66 ára gamall, hefði einangrað marga drengi frá fjölskyldum sínum, sem gerði honum auðveldara að brjóta gegn þeim. Áhrif gjörða hans á drengina, sem flestir eru nú orðnir miðaldra menn, sagði dómarinn hafa verið alvarleg. Flestir þeirra hafa burðast með skömm í lengri tíma, og aðrir glímt við áfengisvandamál, þunglyndi og aðra geðkvilla vegna gjörða þjálfarans.

Mörg fórnarlambanna lýstu áratugalangri reiði sinni vegna gjörða Higgins er þeir báru vitni við réttarhöldin. Nokkrir lýstu því hvernig þeir hefðu reynt að binda endi á eigið líf eða snúið sér að flöskunni eða eiturlyfjum til þess að reyna að má út sárar minningar af misnotkuninni.

Bob Higgins við yfirheyrslur hjá lögreglu.
Bob Higgins við yfirheyrslur hjá lögreglu. Skjáskot/Lögreglan í Hampfordshire

Margir sögðu að þeir hefðu árum saman glímt við kvíða, þunglyndi og átt í erfiðleikum í nánum samböndum. Sumir mannanna 24 eiga farsæla knattspyrnuferla að baki, en aðrir sögðu að draumar þeirra um gott gengi í íþróttinni hefðu ekki ræst vegna misnotkunar þjálfarans.

Einungis nokkrir af mönnunum 24 kusu að njóta ekki nafnleyndar við réttarhöldin yfir Higgins. Dion Raitt, fyrrverandi unglingaliðsleikmaður Peterborough, þar sem Higgins þjálfaði einnig, sagði að Higgins væri illskan uppmáluð og að hann hefði „heilaþvegið“ sig.

Í myndskeiði BBC hér að neðan ræða nokkur fórnarlömb Higgins um misnotkunina af hans hálfu og þær afleiðingar sem hún hafi haft á líf þeirra.

 


Anthony Connolly, sem lék með unglingaliði Southampton, sagði að hann hefði fyrst komist í kynni við Higgins þegar hann var 12 ára gamall og að þjálfarinn hefði blekkt foreldra hans með sama hætti og hann sjálfan. „Þú stalst barnæsku minni,“ sagði Connolly, en hann sagði misnotkunina einnig hafa leitt til þess að að hann fylltist ótta og kvíða, sem hann hefði síðar reynt að deyfa með drykkju.

„Ég vona að Southampton og enska knattspyrnusambandið hafi lært af mistökum sínum,“ sagði Connolly í yfirlýsingu sinni, en Higgins var árið 1992 sýknaður af ásökunum um kynferðisofbeldi gegn ungum leikmönnum liðsins.

Lee Smith, sem einnig lék fyrir unglingalið Southampton, sagði að Higgins væri skrímsli, sem hefði eyðilagt drauma fórnarlamba sinna til að svala eigin brengluðu þörfum. Smith bætti við að fótboltasamfélagið væri nú orðið „mun öruggara“, eftir að dómur féll yfir Higgins.

Bæði knattspyrnufélögin, Southampton og Peterborough, hafa beðið þolendur brota þjálfarans afsökunar.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert