Þurftu að telja kalóríur í miðju prófi

Spurningin var stærðfræðileg en efnislega þótti sumum hún ganga of …
Spurningin var stærðfræðileg en efnislega þótti sumum hún ganga of nærri þeim sem glímt höfðu við átraskanir. mbl.is/Kristinn

Einhverjir nemendur eru sagðir hafa rekið upp stór augu þegar þeir voru krafnir um að reikna út hve margar hitaeiningar væru í svo og svo miklu magni af fæðutegundum í samræmdum prófum í Englandi á dögunum. 

„Það eru 84 kcal í 100g af banönum. Það eru 87 kcal í 100g af jógúrt. Priti fær sér 60 gramma banana og 150g af jógúrti í morgunmat. Reiknaðu út heildarfjölda hitaeininga í morgunmatnum hennar.“

Svo hljóðaði spurningin á prófinu, sem var eitt af GCSE-prófunum, samræmdu prófi sem 16 ára nemendur taka undir lok grunnskóla. Spurningin hefur mælst illa fyrir, þar sem svona bollaleggingar kunna að vera sárar og helst til kunnuglegar þeim sem þjáðst hafa af átröskunum hvers konar.

Einhverjir nemendur eru sagðir hafa þurft að yfirgefa prófið vegna þess hve öfugt spurningin fór ofan í þá.

„Kalóríuspurningin í prófinu í dag hratt af stað flóði neikvæðra tilfinninga í brjósti mér í dag. Ég vona að hún hafi ekki komið öðrum í uppnám sem er þjáður. Spurningin vakti upp svo sárar minningar hjá mér að ég var gráti næst“ segir einn nemendanna á Twitter.

Þeir láti vita sem telja þetta hafa skemmt fyrir sér prófið

Svo neikvæð hafa viðbrögðin verið frá sumum, að skólayfirvöld hafa verið krafin um að rétta hlut þeirra sem telja að áfallið sem spurningin olli þeim hafi haft afgerandi neikvæð áhrif á niðurstöður prófsins sem þau tóku. Í yfirlýsingu frá þeim sem sjá um prófið er spurningin hins vegar sögð standa óhögguð en „að þeir sem telji þetta hafa haft áhrif á frammistöðu sína skuli hafa samband við yfirvöld í gegnum skólann sinn.“

Þau viðbrögð yfirvalda telur pistlahöfundur hjá breska dagblaðinu The Guardian hrökkva skammt. „Pearson Edexcel, stjórnin sem semur prófin, segir hana standa. Það réttlætir þetta ekki. Að reyna að ná bata eftir átröskun í heimi, þar sem sjálfsafneitun er það eina sem er talið lofsvert, er nægilega mikil þjáning. Í minnsta kosti ættu próf í skólum að vera laus við svona útreikninga,“ segir í pistlinum.

Piers Morgan fjölmiðlamaður segir að ansi langt sé seilst í hörðum viðbrögðum við spurningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert