Vatíkanið á fleygiferð um ljósvakann

Þulurinn í nýju latnesku útvarpi Vatíkansins er Alessandro De Carolis, …
Þulurinn í nýju latnesku útvarpi Vatíkansins er Alessandro De Carolis, þaulvanur ítalskur fréttamaður. Skjáskot/YouTube

Nú gefst latínumælandi kostur á að hlýða á vikulegt fréttaskeyti frá Vatíkaninu, þar sem helstu heimsfréttir eru héðan af reifaðar hvern laugardag. Allt á latínu. Hér er komin ný aðgerð kirkjunnar manna sem á að beinast að því að halda lífinu í annars dauðu tungumálinu.

Það er greinilega ekki svo dautt að ekki sé unnt að flytja á því fréttir í útvarp en ef það ætlar að vera eins og önnur lifandi tungumál verður það vitaskuld að laga sig að breyttum tímum. Með það fyrir augum hafa verið tekin upp nokkur nýyrði í latínuna undanfarið, eins og orðið ‘breviloqua’ yfir Twitter-færslu, tíst. Þar er grunnmerkingin eitthvað eins og „fáein stuttorð atriði.“

Þulurinn les upp „Hebdomada Papae“, sem þýðir í raun vika …
Þulurinn les upp „Hebdomada Papae“, sem þýðir í raun vika Páfans. Önnur frétt í útvarpinu þetta skipti er um meint líknardráp stúlku í Hollandi, umræða sem Páfi blandaði sér í á sínum tíma. Skjáskot/Youtube

„Þetta verður alvöru útvarp, með alvöru upplýsingagjöf,“ segir Andrea Tornielli, blaðafulltrúi á vegum Vatíkansins, við La Vanguardia. „Þetta er ekki nostagalískt afturhvarf til fortíðar heldur áskorun til framtíðar,“ áréttar hann.

Einstaklega forvitnilegt er að leggja við hlustir og kanna hvort maður greini orða skil. Ekki er töluð vitleysan þegar sagt er að í innslaginu verði fluttnar ærnar fréttir, en á meðal þess sem þulurinn segir frá er frétt af hollenskri stúlku sem á dögunum valdi að deyja, sem mbl.is tók einnig fyrir.

Latínan sterkust á skrifstofunni 

Alveg frá kirkjuþingi í Vatíkaninu árið 1965, þegar kaþólskum kirkjusóknum heimsins var gert að flytja messur á þjóðtungum sóknarbarna, hefur latína nærri einvörðungu verið notuð í Vatíkaninu í opinberum skjölum og stjórnsýsluvafstri. Páfinn messar þó enn á latínu vikulega og því er streymt á YouTube.

Frans páfi við ræðuhöld í Róm. Hann flytur messur á …
Frans páfi við ræðuhöld í Róm. Hann flytur messur á latínu. AFP

Með nýjum útvarpsinnslögum, sem fylgt verður úr hlaði með um hálftíma löngu hlaðvarpi á latínu, er því gerð bragarbót á því hve lítið tungumálið er í raun og veru talað. Í grein Vanguardia er bent á að hvergi sé tungumálið í raun meira lifandi en inni á latínuskrifstofum Vatíkansins, sem telja sjö starfsmenn sem einsetja sér að tala aðeins latínu sín á milli.

María mey var fyrsti áhrifavaldurinn

Latínumenn þurfa að hafa sig alla við að finna upp á latneskum útgáfum af ýmsum orðum og hugtökum sem spretta úr nútímafarvegi. Ekki er von nema Páfinn hafi sérstakt orð yfir tíst, enda ötull tístari sjálfur á þessum latneska Twitter-reikningi, sem Vatíkanið fellst þó á að latínuskrifstofan þeirra haldi úti, en ekki sjálfur Páfi.

Hvernig veit ég að Guð sé hlusta? spyr Páfi hér á Twitter. Svarið er gefið í sömu mund.

Önnur nýyrði í latínunni eru orð eins „concitatrix“ sem Páfinn notaði þegar hann kallaði Maríu mey fyrsta áhrifavaldinn (e. influencer). Útlendingahatur, á ensku xenophobia, er þýtt með því lipra og gagnorða orðasambandi „exteranum gentium odium.“ Latínumenn eru meira að segja komnir með þýðingu sem Íslendingum hefur ekki tekist að skeyta saman í haldgott orð en það er orðið yfir áhugamenn um fljúgandi furðuhluti, á ensku „ufologist“. Að vera slíkur er auðvitað að vera „rerum inexplicatarum volantium studiosus“ á latínu.

Það sem mesta furðu vekur í málinu kann loks að vera það að Vatíkanið er ekki að finna upp hjólið. Finnska ríkisútvarpið hefur um árabil flutt fréttir á latínu vikulega, þar sem hið forna mál Sesars er notað til þess að segja frá sporgöngumönnum hans í nútímasamfélagi, eins og Donald Trump eða þess vegna bara sjálfstæðisáfjáðum Katalónum.

Hér er frétt um málið á www.vaticannews.va

mbl.is