Grunur um 17. „norska“ loftsteininn

Verksummerkin á Mofjellet, dökkleitur og bráðinn snjór, torkennileg lykt en ...
Verksummerkin á Mofjellet, dökkleitur og bráðinn snjór, torkennileg lykt en engin spor í kring. Ljósmynd/Nils-Ove Karlsen

Þeir félagar Nils-Ove Karlsen og André Nilsen frá bænum Mo i Rana, sem ber þetta sérstaka heiti til aðgreiningar frá átta öðrum Mo-örnefnum í Noregi, auk tveggja niðurlagðra, spókuðu sig í göngutúr á Mofjellet í fyrradag þegar þeir gengu fram á undarleg ummerki á snæbreiðu einni þar á fjallinu.

Við blasti dökkbrúnn flekkur í snjónum, um sex metrar í þvermál, alsettur götum þar sem eitthvað hafði brætt sig niður í snjóinn. Til að kóróna upplifunina barst seyrinn brunakeimur frá flekknum.

„Greinilegt var að eitthvað heitt hafði fallið til jarðar og brætt snjóinn,“ segir Karlsen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en það var Rana Blad sem fyrst greindi frá fundinum og rekur áskriftarvef. „Lyktin var mjög sérstök, einhvers konar brunalykt,“ bætir hann við og segir augljóst að göngumenn hafi ekki gert sér bál þarna á snæflákanum þar sem engin spor voru sýnileg í nágrenninu.

Spenna hjá jarðfræðistofnun

Karlsen tók myndina sem sjá má með þessari frétt og sendi hana vini sínum, blaðamanni á héraðsmiðli þeirra Rana-manna. Sá sendi hana áfram til Øystein Nordgulen, deildarstjóra við Rannsóknarstofnun í jarðfræði (Norges geologiske undersøkelse, NGU), sem fylltist þegar áhuga og bíður nú spenntur eftir að fá í hendur bergsýni sem Karlsen og Nilsen höfðu með sér niður af fjallinu.

Þeir félagar, Karlsen og Nilsen, með bergsýni í fötu sem ...
Þeir félagar, Karlsen og Nilsen, með bergsýni í fötu sem norskir jarðfræðingar munu brátt fá til athugunar. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Við höfum mikinn áhuga á að rannsaka þessi sýni,“ segir Nordgulen við NRK, „almenningur kemur með um það bil 100 sýni af fundnum steintegundum til okkar ár hvert sem sjaldnast reynast loftsteinar,“ segir hann að auki.

Skráningar loftsteinafunda hófust í Noregi árið 1848 og hafa á þeim rúmu 170 árum sem síðan eru liðin 16 loftsteinar eða brot úr þeim fundist í landinu en vefsíðan Norsk meteorittnettverk heldur utan um slíka fundi, og annan fróðleik um heimsóknir loftsteina, af samviskusemi. Þar má til dæmis fræðast um þá staðreynd að árið 1942 fannst reyndar loftsteinn í Nesna, nágrannasveitarfélagi Rana, svo reynist loftsteinn hafa verið á ferð nú á Mofjellet mætti til gamans reikna hverjar líkurnar eru á að tveir af 17 loftsteinum lendi í nágrannasveitarfélögum á 77 ára tímabili í landi 422 sveitarfélaga (sem voru reyndar 747 árið 1942).

Til fróðleiks má benda á að náttúrugripasafn Háskólans í Ósló hefur gefið út leiðbeiningar til fólks sem rekst á loftsteina á förnum vegi og er þar meðal annars fjallað um eignarrétt slíkra steina og vísað í grein lögfræðings um hvort jarðeigandi eða finnandi teljist eigandi loftsteins sé þetta ekki sami aðilinn. Slíkar vangaveltur eru síst nýjar af nálinni því fræðimenn hafa áður deilt hástöfum um hver eigi tunglið.

mbl.is
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is...
fágætar bækur til sölu
til sölu nokkrar fágætar bækur Sjálfstætt fólk 1-2, frumútgáfur með kápum ...
Málun bílastæða
Vertíðin hafin leitið tilboða: S: 551 4000 - verktak@verktak.is eða á http...
UHD skjáir ( 4k )
Upplýsingar gefur Ólafur hjá Varmás ehf. sími 566 8144 ...