Ríkisstofnanir lokaðar eftir óeirðir

Yfirvöld í Hong Kong lokuðu í dag ríkisstofnunum og skrifstofum í fjármálahverfinu, eftir að í gær kom til mesta ofbeldis í tengslum við mótmæli í borginni sem orðið hefur í áratugi. BBC segir mun færri mótmælendur þó hafa safnast saman við byggingar heimastjórnarinnar í dag, en í gær skaut lögregla gúmmí­kúl­um og úðaði tára­gasi að mót­mæl­end­um. 

Hefur fólkið komið saman til að mót­mæla áform­um stjórn­valda um að heim­ila framsal brota­manna frá sjálf­stjórn­ar­svæðinu til meg­in­lands Kína. Heimastjórnin hefur þó ekki bakkað með þessi áform sín þrátt fyrir víðtæka óánægju meðal íbúa.

Upphaflega stóð til að önnur umræða um þetta umdeilda frumvarp færi fram í gær, en tug­ir þúsunda komu þá saman til að mót­mæla áform­um stjórn­valda og lokuðu götum í næsta nágrenni stjórnarbyggingarinnar og skarst í hart milli óeirðalögreglu og mótmælenda. Löggjafarþing Hong Kong seinkaði í kjölfarið annarri umræðu frumvarpsins og er óvíst hvenær hún mun fara fram. Segir BBC þó búist við að það fjölgi í hópi mótmælenda á ný er það gerist.

Hafa mannréttindasamtökin Human Rights Watch sakað lögreglu um að beita „óhóflegu valdi“ gegn mótmælendum. Segir BBC 72 á aldrinum 15-66 ára hafa særst í mótmælunum og er ástand tveggja þeirra alvarlegt. Þá særðist 21 lögreglumaður og þurftu níu þeirra aðhlynningar við á sjúkrahúsi að sögn SCMP-fréttavefjarins.

Gagn­rýn­end­ur hafa sagt að lög­in geti orðið til þess að íbú­ar Hong Kong þurfi að sæta pynt­ing­um, til­hæfu­lausu gæslu­v­arðhaldi og þvinguðum játn­ing­um á meg­in­land­inu, þar sem stjórn­völd verða seint þekkt fyr­ir virðingu fyr­ir mann­rétt­ind­um og lög­um rétt­ar­rík­is­ins.

Heima­stjórn­in í Hong Kong hef­ur þó heitið því að laga­leg­ir fyr­ir­var­ar muni sjá til þess að mann­rétt­inda verði gætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert