Trump þiggur upplýsingar

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir að hann muni þiggja upplýsingar frá erlendum ríkjum um þann sem keppir við hann um hylli kjósenda í forsetakosningunum á næsta ári. Hann hefur hingað til neitað því að hafa þegið aðstoð Rússa við að hafa betur í kosningabaráttunni 2016.

Starfsmenn kosningaframboðs Trumps voru í samskiptum við Rússa árið 2016 og leiddi það til sérstakrar rannsóknar undir stjórn sérstaks saksóknara Roberts Mueller á því hvort lög hafi verið brotin. Rannsókn Muellers leiddi í ljós að rússneskir embættismenn hefðu haft áhrif á forsetakosningarnar árið 2016.

Miðað við ummæli Trumps nú virðist sem forseti Bandaríkjanna sjái ekkert athugavert við það. Trump sagði í viðtali við ABC News að ekkert sé rangt við það að hlusta á það sem erlend ríki hafi að segja. Með því var hann að svara spurningu fréttamanns um hver yrðu hans viðbrögð ef Rússar eða Kínverjar byðu honum upp á slíkar upplýsingar. Slíkt væri ekki dæmi um erlend afskipti af bandarískum kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert