Tvö látin úr ebólu í Úganda

AFP

Fimmtug kona, sem greindist nýverið með ebólu í Úganda, er látin en þetta er annað dauðsfallið af völdum ebólu í landinu á nokkrum dögum. Fimm ára gamall drengur, barnabarn konunnar, lést fyrir stuttu eftir að fjölskyldan kom frá nágrannaríkinu Austur-Kongó.

Í gær var greint frá því að vitað væri um þrjú ebólusmit í Úganda en þetta eru fyrstu tilvikin, svo vitað sé, um að ebóla hafa borist milli landanna tveggja. Konan og drengurinn ásamt þriggja ára gömlum bróður drengsins höfðu verið í Austur-Kongó þar sem þau önnuðust um ættingja smitaðan af ebólu og voru við útför viðkomandi áður en þau sneru aftur heim til Úganda. 

Ebólufaraldur hefur geisað í Austur-Kongó frá því í ágúst en þetta eru fyrstu tilvik ebólusmita í Úganda frá þeim tíma.  

Fjölskyldan hefur verið í einangrun á sjúkrahúsi í Bwera í Kasese-héraði en átta til viðbótar, sem hafa verið í tengslum við þau, eru einnig undir eftirliti og einangrun. Þau ásamt heilbrigðisstarfsmönnum verða bólusett á föstudag með nýju lyfi sem er ætlað að verja fólk við ebólu. 

Yfir tvö þúsund hafa smitast af ebólu í Austur-Kongó og hafa tveir þriðju þeirra látist af völdum sjúkdómsins.

mbl.is