Blóð úr ófæddum tvíbura

Hjólreiðamaðurinn Tyler Hamilton.
Hjólreiðamaðurinn Tyler Hamilton.

Þekkt er að blóðgjöf örvar súrefnisflæði og getur haft góð áhrif fyrir keppni. Þegar blóðprufa leiddi í ljós blóð í æðakerfinu sem ekki var úr honum sjálfum gáfu menn sér að hjólreiðamaðurinn Tyler Hamilton hefði beitt þessari aðferð. Svo var ekki, alltént ef marka má Hamilton sjálfan. Þannig er mál með vexti að hann hafði misst tvíburabróður sinn í móðurkviði og eitthvað af frumum hans orðið eftir í blóðinu. Blóðið var sumsé ekki úr Hamilton sjálfum, heldur tvíburabróður hans sem aldrei fæddist.

Eins ótrúlega og það hljómar þá getur þetta í raun og veru gerst en er á hinn bóginn ofboðslega sjaldgæft. Nógu sjaldgæft til þess að lyfjaeftirlit Bandaríkjanna dæmdi Hamilton í tveggja ára keppnisbann.

Þetta kemur meðal annars fram í úttekt Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins á afsökunum íþróttamanna sem gerast oftar enn ekki mjög frumlegir þegar kemur að því að útskýra ósgur, mistök eða hvers vegna þeir féllu á lyfjaprófi. 

Tapsárir íþróttamenn eru þjóðflokkur út af fyrir sig og af einhverjum ástæðum virðast þeir alltaf vera með munninn fyrir neðan nefið. Gott dæmi um það er sambíski tennisleikarinn Lighton Ndefwayl. Eftir að hafa lotið í leir gegn Musumba nokkrum Bwayla árið 1992 gerði hann upp leikinn í samtali við fjölmiðla:

„Bwayla er illa gefinn og afleitur leikmaður. Hann er nefstór og rangeygður. Stúlkur hafa ímugust á honum. Hann vann mig vegna þess að pungbindið mitt var of þétt og út af því að hann rekur við þegar hann gefur upp; það varð til þess að ég tapaði einbeitingunni, sem ég er víðfrægur fyrir í gjörvallri Sambíu.“

Sir Alex Ferguson var jafnan með svör á reiðum höndum, þá sjaldan Manchester United lék illa undir hans stjórn. Þegar liðið gekk til búningsherbergja í leikhléi gegn Southampton árið 1996, þemur mörkum undir, lét hann það skipta um búninga. Þeir fyrri, sem voru gráir, gerðu það nefnilega að verkum að leikmenn United sáu meðherjana seint og illa. Klippt og skorið.

Aðra goðsögn, Bill Shankly, sem stýrði Liverpool um árabil, rak heldur ekki í vörðurnar eftir að lið hans tapaði 7:2 fyrir Tottenham. „Hefði Jimmy Greaves ekki skorað fernu þá hefðum við ekki tapað svona stórt.“

Erfitt að átta sig á útkastshorninu

Íslenskir íþróttamenn hafa ekki látið sitt eftir liggja í þessum efnum. Einar Vilhjálmsson var á heimsmælikvarða í spjótkasti á níunda áratugnum og fór með Gleðibanka-væntingar heillar þjóðar á herðunum inn á Ólympíuleikana í Los Angeles 1984 (og það áður en Gleðibankinn var saminn). Hann náði sjötta sæti á leikunum, sem var sannarlega frábær árangur og mun betra en sextánda sæti, en var þó nokkuð frá sínu besta. Í samtali við fjölmiðla að keppni lokinni gat Einar þess að gríðarlega erfitt hefði verið að átta sig á því hvernig útkastshornið átti að vera. Menn, leika sem lærða, greinir ennþá á um það hvort hér hafi verið á ferðinni skýring eða afsökun en það breytir ekki því að frasinn fór á mikið flug hér í fásinninu og dæmi um að framhaldsskólanemar hafi notað hann til að útskýra/afsaka slælega frammistöðu á prófum. „Útkastshornið hentaði ekki!“

Annar spjótkastari, Ásdís Hjálmsdóttir, náði sér engan veginn á strik á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016; enda ekki við því að búast, hún var nefnilega í formi lífs síns. „Þetta er náttúrulega voðalega svekkjandi. Það er bæði jákvætt og neikvætt við þetta að ástæðan fyrir því að ég er að gera þessi köst ógild er [að ég er] svo hroðalega fersk og hröð núna,“ sagði Ásdís við Ríkisútvarpið.

Nánar er fjallað um afsakanir íþróttamanna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Ryan Giggs gat ómögulega komið auga á David Beckham í …
Ryan Giggs gat ómögulega komið auga á David Beckham í leik gegn Southampton árið 1996.
Ásdís Hjálmsdóttir var í of góðu formi.
Ásdís Hjálmsdóttir var í of góðu formi. Skapti Hallgrímsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert