Farin í annað hungurverkfall

Nazanin Zaghari-Ratcliffe og Richard Ratcliffe. Myndin er tekin á gamlárskvöld …
Nazanin Zaghari-Ratcliffe og Richard Ratcliffe. Myndin er tekin á gamlárskvöld 2011. Wikipedia/MrZeroPage

Bresk-írönsk móðir sem situr í fangelsi í Tehran fyrir að breiða út uppreisnaráróður hefur hafið annað hungurverkfall til að mótmæla fangelsun sinni. Eiginmaður hennar greindi frá þessu í morgun.

Nazanin Zaghari-Ratcliffe, sem er fertug, neitar að borða á sama tíma og hún fagnar fimm ára afmæli dóttur sinnar, að því er Richard Ratcliffe greindi frá í yfirlýsingu.

Eiginkonan hans var handtekin í apríl 2016 er hún var að yfirgefa Íran eftir að hafa ferðast þangað með nýfædda dóttur sína til að hitta fjölskyldu hennar. Hún var dæmd í fimm ára fangelsi vegna ásakana um að hafa reynt að grafa undan írönsku ríkisstjórninni.

„Hún hefur greint dómsvaldinu frá því að hún sé farin í annað hungurverkfall til að mótmæla óréttlátri fangelsun sinni,“ sagði Richard Ratcliff og bætti við að hún muni áfram drekka vatn.

„Hún hefur hótað þessu í nokkurn tíma. Nazanin hafði heitið því að ef Gabriella yrði fimm ára á meðan hún væri enn í fangelsi myndi hún grípa til einhvers ráðs til að sýna stjórnvöldum að nú sé nóg komið. Þetta hefur gengið á of lengi.“

Hún fór síðast í hungurverkfall í janúar sem stóð yfir í þrjá daga.

Eiginmaður hennar hvetur stjórnvöld til að leysa hana úr haldi án tafar.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert