Lögregla bað samkynhneigða Norðmenn afsökunar

Margt vatnið runnið til sjávar. Lögreglan í Ósló í gleðigöngunni …
Margt vatnið runnið til sjávar. Lögreglan í Ósló í gleðigöngunni á Ósló Pride í júlí 2017 undir kjörorðinu „Ein lögregla fyrir alla“. Lögreglan steig fram fyrir skjöldu á miðvikudaginn og bað samkynhneigða Norðmenn afsökunar á ofsóknum og órétti sem þeir voru beittir um árabil. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

„Þessa hef ég beðið í 25 ár. [...] Ég sagði að ég brysti í grát þegar þessi afsökunarbeiðni kæmi og ég finn að það er að gerast núna,“ sagði Svein Skeid, leiðsögumaður í Ósló og „hommasagnfræðingur“ (n. homohistoriker), í samtali við norska ríkisútvarpið NRK á miðvikudaginn þegar lögreglan í Ósló bað samkynhneigða Norðmenn opinberlega afsökunar á að hafa beitt þá ofsóknum og órétti um áratugi.

Afsökunarbeiðnin var lögð fram á opinni samkomu á sal lögreglustöðvarinnar í Grønland í Ósló þar sem Kristin Kvigne, deildarstjóri fagdeildar lögreglunnar (n. politifagavdelingen), deildar sem fer með mótunarvinnu í starfsaðferðum og framkvæmd lögreglustarfa, steig í pontu og flutti afsökunarbeiðni lögreglunnar sem hljómaði svo:

„Sem lögreglu er okkur auðvitað uppálagt að framfylgja lögunum eins og þau eru á hverjum tíma. Þó má slá því föstu að jafnvel eftir að bann við samkynhneigð var numið úr norskum lögum [213. grein norsku hegningarlaganna, sem numin var úr þeim árið 1972, bannaði kynmök milli karlmanna að viðlögðu eins árs fangelsi, en var aldrei framfylgt eftir síðari heimsstyrjöld] er ekki hægt að segja að allar aðgerðir lögreglu hafi verið siðferðislega réttlætanlegar.

Ótti við lögregluna

Því miður var það einnig svo, að jafnvel eftir árið 1972 ríkti ótti við lögregluna meðal samkynhneigðra karlmanna og réttilega er það sagt að framganga lögreglunnar breyttist ekki á einni nóttu eftir að bannið var afnumið. Lögreglustjóri hefur núna í vikunni beðist afsökunar á þeirri meðferð sem samkynhneigðir sættu af hálfu lögreglu og okkur er auðvelt að samsama okkur þeirri beiðni.

En afsökunarbeiðni fylgja skyldur. Það er þess vegna ánægjulegt að sjá andstæðurnar milli þessara gömlu tíma og þess þegar lögreglan nú tekur af fullum hug þátt í hátíðarhöldum Hinsegin daga [Oslo Pride heitir hátíðin hér]. Í lögreglunni hafa margir starfað sem hafa lifað í ótta. Ótta við að verða afhjúpaðir og í kjölfarið útskúfaðir. Þá vil ég einnig biðja afsökunar. Stjórnenda er að sjá til þess að tryggt sé að allir eigi sér öruggt starfsumhverfi. Á þessum vettvangi brugðumst við og ber að harma það.

Og að endingu. Kæra Kim Friele. Fyrir hönd lögreglunnar vil ég þakka þér fyrir sleitulaust framlag þitt. Þú hefur gert okkur að örlátara samfélagi og þú hefur gert okkur að betri lögreglu.“

Þeir hurfu bara

Kim Friele, eða Karen-Christine Friele, er 84 ára gamall rithöfundur og aðgerðasinni sem barist hefur fyrir réttindum hinsegin fólks í Noregi áratugum saman og hlotið meðal annars riddarakross fyrsta flokks reglu Ólafs helga (Noregskonungs á 11. öld) fyrir baráttu sína. Bækur hennar um samkynhneigð vöktu gríðarlega athygli, einkum bókin Þeir hurfu bara ... Brot úr sögu samkynhneigðra (n. De forsvant bare ... Fragmenter av homofiles historie) sem kom út árið 1985. Sextíu ár eru liðin síðan Friele kom út úr skápnum.

Hún steig næst í pontu og flutti ávarp sitt þar sem hún sagði meðal annars frá stofnun Samtakanna 1948 (n. Det norske forbundet av 1948), lokaðra samtaka samkynhneigðra á tíma þegar enga fræðslu var að fá og samkynhneigð var álitin sjúkdómur í Noregi og rifjaði Friele með hryllingi upp tíma þegar norskt heilbrigðiskerfi reyndi að „lækna“ samkynhneigð með því að senda samkynhneigða í hvítuskurð eða geiraskurð (e. lobotomy) sem hún sagði hafa svipt þá allri sköpunargáfu. Þá voru fjórir samkynhneigðir menn geltir við sjúkrahúsið í Sandaker árið 1940.

Það var ekki fyrr en árið 2000 sem norska félagsmálaráðuneytið fjarlægði samkynhneigð af lista sínum yfir sjúkdómsgreiningar.

Aftenposten

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert