Sjö bæjarstjórar í hinsegin sokkum

Norsku bæjarstjórarnir sjö á fundi sínum í regnbogasokkunum. Ivar Kvalen, …
Norsku bæjarstjórarnir sjö á fundi sínum í regnbogasokkunum. Ivar Kvalen, bæjarstjóri í Luster, er lengst til hægri. Ljósmynd/Úr einkasafni

Oslo Pride-hátíðin hefur þróast úr því að vera bundin við höfuðborg Noregs yfir í að vera komin um allt land og keppast nú norsk sveitarfélög og fjöldi opinberra aðila við að draga regnbogafánann að húni við upphaf rúmlega vikulangrar Pride-hátíðar í Ósló. Var asinn til að mynda svo mikill að flagga við höfuðstöðvar Verkamannaflokksins að þar flögguðu menn í ógáti samíska fánanum svo sem norskir fjölmiðlar greindu frá í gær, þar á meðal VG.

Í Sognsæ og Firðafylki var fjölbreytileikanum fagnað með nýstárlegum hætti þegar bæjarstjórar sjö sveitarfélaga hittust á reglulegum fundi sínum í gær íklæddir litríkum og rækilega hinsegin sokkum í öllum regnbogans litum.

Það var Ivar Kvalen, bæjarstjóri í Luster, sem mætti til fundarins með sjö pör af sokkum og útdeildi þeim meðal starfsbræðra sinna í nágrannasveitarfélögunum. „Hérna sitjum við gömlu karlarnir með krosslagða fætur í þessum flottu sokkum,“ segir Kvalen í viðtali við Porten.no sem fyrst greindi frá sokkafundinum litríka.

Vilja vekja meiri athygli á hátíðinni

Áður en hann hélt til fundarins hafði hann dregið regnbogafánann að húni við ráðhús heimabyggðar sinnar að viðstöddum 50 áhorfendum og markað þannig upphaf hinsegin daga bæjarins.

Það var nágranni Kvalen sem bankaði upp á hjá honum með sokkana, segir hann norska ríkisútvarpinu NRK frá. „Það var ekki verra en það að ég þáði nokkur pör og gaf starfsbræðrum mínum,“ segir Kvalen enn fremur. „Ég vona að við sem kjörnir fulltrúar getum vakið meiri athygli á Pride-hátíðinni og sýnt fram á að það breytir engu hvort þú ert fyrir stelpur eða stráka,“ eru hans lokaorð.

Hátíðin í Ósló var sett í gær og stendur í rúma viku. Hápunktur hennar er gleðigangan á laugardaginn eftir viku en í fyrra tóku 40.000 manns þátt í henni og létu í allt 300.000 gestir létu sjá sig í miðborg Óslóar í blíðskaparveðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert