Sjö köfnuðu í rotþró á Indlandi

Lögregluyfirvöld í Vadodara fara með rannsókn málsins.
Lögregluyfirvöld í Vadodara fara með rannsókn málsins. AFP

Sjö manns létust í vesturhluta Indlands eftir að tilraun til að hreinsa rotþró hótels fór úrskeiðis í gærkvöldi. Dánarorsök er talin vera köfnun af súrefnisskorti en enginn þeirra látnu var með viðeigandi öryggisbúnað. Eigandi hótelsins hefur verið ákærður fyrir að hafa valdið dauða mannanna með vanrækslu, að sögn lögreglu þar ytra.

Meðal þeirra látnu voru fjórir starfsmenn hreinsunarþjónustufyrirtækis og þrír hótelstarfsmenn. „Til að byrja með fór einn af hreingerningarmönnunum ofan í rotþróna en þegar hann sneri ekki til baka fóru þrír kollegar hans til að aðstoða hann,“ sagði varðstjóri slökkviliðsins í Vadodara á Indlandi. Þegar þeir sneru ekki til baka fóru þrír hótelstarfsmenn ofan í rotþróna til að aðstoða þá en þeir köfnuðu sömuleiðis, bætti hann við.

Andlát vegna köfnunar í holræsum og rotþróm eru algeng á Indlandi og ekki er langt síðan fimm létust í Nýju-Delí af þeim ástæðum. Yfirvöld í Indlandi hafa gert nokkrar tilraunir til að koma í veg fyrir slík dauðsföll með því að herða öryggiskröfur en það hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Engin opinber gögn eru til um fjölda dauðsfalla en kannanir benda til þess að þau geti verið allt að 1.370 á hverju ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert