Timburvöllur settur á ís

Arkitektastofa írask-breska arkitektsins Zaha Hadid hannaði völlinn.
Arkitektastofa írask-breska arkitektsins Zaha Hadid hannaði völlinn. Teikning/Zaha Hadid

Áætlanir breska þriðjudeildarliðsins Forest Green Rovers um byggingu fótboltavallar úr timbri hafa verið settar á ís eftir að bæjarráð Nailsworth í Englandi hafnaði tillögunum.

Tillögunni var hafnað með þremur atkvæðum og meðal ástæðna sem gefnar voru upp voru hávaði sem fylgdi vellinum, umferðarþungi, já og að völlurinn yrði lýti á umhverfinu. Vellinum, sem ætlað var að taka 5.000 manns í sæti, hefðu enda fylgt 1.700 bílastæði og tveir æfingavellir.

Dale Vince, framkvæmdastjóri félagsins, segist mögulega munu áfrýja ákvörðuninni en veltir fyrir sér hvort það sé fyrirhafnarinnar virði. „Hversu mikið ætti ég að þurfa að hafa fyrir því að ná fram smáframförum og skapa störf?“

Liðið er eitt fimmtán samtaka hvaðanæva úr heiminum til að hljóta straumhvarfaviðurkenningu Sameinuðu þjóðanna (Monument for Change). 

Hönnun vallarins hlaut þónokkurt lof hjá bæjarráðsmönnum og hefur BBC eftir Haydn Jones í bæjarráði að hönnunin sé „glæsileg“ og hann vilji endilega sjá hana í Stroud-hverfinu í Nailsworth. Hins vegar verði ekki framhjá því litið að völlurinn gangi gegn aðalskipulagi bæjarins, sem gildir til ársins 2031, þar sem ekki er gert ráð fyrir fótboltavelli á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert