Titringur vegna ótta um átök

AFP

Klerkastjórnin í Íran sagði í gær að ekkert væri hæft í ásökunum stjórnvalda í Bandaríkjunum um að hún hefði staðið fyrir árásum á tvö tankskip í Ómanflóa, nálægt Hormuz-sundi, í fyrradag. Árásirnar ollu titringi á olíumörkuðum þar sem óttast er að spennan milli ríkjanna geti leitt til átaka á þessari mikilvægu siglingaleið. Rúmur þriðjungur af allri hráolíu, sem flutt er með skipum í heiminum, fer um Hormuz-sund, m.a. um 80% af allri olíu sem flutt er til Japans.

Bandaríkjaher birti óskýrt svart-hvítt myndskeið sem hann sagði sýna að íranskir hermenn hefðu fjarlægt tundurdufl sem festist á öðru tankskipanna en sprakk ekki. Herinn birti einnig ljósmyndir sem virtust sýna tundurduflið á skipinu áður en það var fjarlægt.

Um mánuði áður höfðu verið gerðar árásir á fjögur tankskip undan strönd Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Bandarísk stjórnvöld sökuðu Írana einnig um þær árásir, án þess að leggja fram nein sönnunargögn, en klerkastjórnin í Teheran sagði ekkert hæft í þeim ásökunum.

Rakið til ákvörðunar Trumps

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að bandarísk stjórnvöld teldu að Íranar hefðu ráðist á tankskipin tvö í fyrradag og að engin hreyfinganna í grannríkjum Írans sem njóta stuðnings klerkastjórnarinnar hefði getað gert árásirnar. Pompeo benti á að Íranar hefðu áður hótað að loka Hormuz-sundi ef þeim yrði meinað að flytja út olíu. Utanríkisráðherrann tengdi árásirnar við þá ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta fyrir rúmu ári að draga landið út úr kjarnorkusamningi sex landa við Íran og setja viðskiptabann sem varð til þess að olíuútflutningur Írans snarminnkaði. Á þeim tíma vöruðu fréttaskýrendur við því að Trump hefði tekið mikla áhættu með ákvörðuninni og töldu hana auka hættuna á átökum milli herja Írans annars vegar og Bandaríkjanna, Ísraels eða Sádi-Arabíu hins vegar.

Vefengja yfirlýsingar Írana

Nokkrir fréttaskýrendur vefengdu yfirlýsingar klerkastjórnarinnar um að hún hefði ekki staðið fyrir árásunum. „Árásirnar virðast vera liður í markvissum tilraunum Írana til að sýna að friður og öryggi í flóanum er háð efnahagsstöðugleika Írans,“ hefur The Wall Street Journal eftir Ayham Kamel, sérfræðingi ráðgjafarfyrirtækisins Eurasia Group í málefnum Mið-Austurlanda.

Ljósmynd sem sýnir skemmdir á öðru tankskipanna og „líklegt tundurdufl“ …
Ljósmynd sem sýnir skemmdir á öðru tankskipanna og „líklegt tundurdufl“ (örin t.h.). AFP

Nokkrir fréttaskýrendur hafa leitt getum að því að með því að gera slíkar árásir, án þess að sökkva skipum og valda manntjóni, séu Íranar að senda þau skilaboð að þeir geti truflað siglingar á svæðinu án þess að koma af stað stríði, að sögn fréttavefjar breska ríkisútvarpsins.

Fréttaveitan AFP hefur eftir sérfræðingum í málefnum Mið-Austurlanda að vaxandi spenna í samskiptum Írans og Bandaríkjanna geti orðið til þess að stríðsátök blossi upp fyrir slysni. „Veruleg og vaxandi hætta er á því að atburðirnir leiði til átaka,“ hefur AFP eftir sérfræðingum rannsókna- og ráðgjafarfyrirtækisins Capital Economics í Lundúnum. „Ekki þarf meira en yfirsjón eða misskilin skilaboð til að koma af stað átökum. Og þegar árásunum fjölgar eykst hættan á því að það gerist.“

Harðlínumenn andvígir viðræðum

Fréttaskýrandi The Washington Post bendir á að ef megi rekja árásirnar til vaxandi togstreitu milli embættismanna í Íran sem vilja samningaviðræður við Vesturlönd og harðlínumanna sem eru andvígir þeim. Á meðal hinna síðarnefndu eru stjórnendur Byltingarvarðarins, úrvalssveita sem Ruhollah Khomeini erkiklerkur stofnaði eftir byltinguna í Íran 1979.

Dufl fjarlægt? Úr myndskeiði sem sagt er sýna að tundurdufl …
Dufl fjarlægt? Úr myndskeiði sem sagt er sýna að tundurdufl hafi verið fjarlægt. AFP

Báturinn sem sést á myndskeiðinu frá Bandaríkjaher líkist bátum í flota Byltingarvarðarins sem hefur verið efldur mjög á síðustu árum og að miklu leyti tekið við hlutverki sjóhers Írans. Byltingarvörðurinn notar meðal annars marga hraðskreiða báta sem eru með tundurdufl, flugskeyti, tundurskeyti og dróna, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

Byltingarvörðurinn heyrir undir æðsta leiðtoga Írans, Ali Khamenei erkiklerk. Árásirnar í fyrradag voru gerðar nokkrum klukkustundum áður en Khamenei átti fund með Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sem fór til Teheran í því skyni að reyna að hafa milligöngu um samningaviðræður milli Bandaríkjanna og Írans. Sú tilraun virðist hafa verið dauðadæmd frá upphafi því að Khamenei sagði á fundinum að hann léði ekki máls á neinum viðræðum við stjórn Trumps. Forsetinn sagði einnig á Twitter að hann teldi að of snemmt væri að hefja viðræður við Írana. „Þeir eru ekki tilbúnir í viðræður og ekki við heldur!“ skrifaði hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »