Rafmagni komið á hægt en örugglega

Rafmagnsleysið olli ekki síst ringulreið í umferðinni, þar sem götuljós …
Rafmagnsleysið olli ekki síst ringulreið í umferðinni, þar sem götuljós voru óvirk. AFP

Orkuveitur í Argentínu og Úrúgvæ vinna hörðum höndum að því að koma rafmagni aftur til íbúa landanna, en stórtæk bilun sem upp kom í rafmagnstengingarkerfi gerði það að verkum að um 48 milljónir íbúa urðu rafmagnslausir klukkan sjö að staðartíma í morgun.

Bilunin hafði einnig smávægileg áhrif í Paragvæ, þar sem nokkur svæði urðu rafmagnslaus til skamms tíma, að því er segir á fréttaveitu AFP.

Samkvæmt ríkisorkuveitu Úrúgvæ er rafmagn að mestu komið á í norðurhluta landsins, ofan við fljótið Rio Negro, á hluta suðurstrandar landsins og í helstu borgum þess.

Argentínska orkufyrirtækið Edesur, sem veitir 2,5 milljónum íbúa rafmagn, hefur tilkynnt að rafmagn sé aftur komið á hjá 50 þúsund viðskiptavinum þess og að rafmagn sé hægt og rólega að komast inn á allt kerfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert