Indverskur töframaður talinn af

Chanchal Lahiri á leiðinni ofan í ána.
Chanchal Lahiri á leiðinni ofan í ána. AFP

Indverskur töframaður, sem ætlaði að endurtaka fræga brellu Harrys Houdini með því að fara bundinn og hlekkjaður ofan í á, er talinn af.

Chanchal Lahiri, þekktur undir nafninu Jadugar Mandrake, var látinn síga ofan í á í borginni Kolkata í gulum og rauðum búningi.

Hinn fertugi Lahiri, sem var rækilega bundinn á höndum og fótum, kom ekki aftur upp úr vatninu og vakti það að vonum mikinn óhug á meðal viðstaddra, þar á meðal fjölskyldu hans.

Leit hefur staðið yfir að töframanninum í ánni en hún hefur enn ekki borið árangur. „Við óttumst að hann hafi drukknað í ánni,“ sagði lögreglumaðurinn Syed Waquar Raza.

Lahiri sagði í samtali við AFP-fréttastofuna fyrir brelluna að honum hefði tekist að losa sig úr hlekkjunum í sams konar atriði fyrir 21 ári á sama stað. Þá kom hann upp úr vatninu eftir 29 sekúndur.

„Ef ég get opnað hlekkina verða það töfrar, en ef ekki verður það sorglegt,“ sagði hann.

Með atriðinu sagðist hann vilja endurvekja áhuga fólks á töfrum.

Skömmu áður en töframaðurinn var látinn síga niður.
Skömmu áður en töframaðurinn var látinn síga niður. AFP
mbl.is