Jemtland situr við sinn keip

Svein og Janne Jemtland á ferðalagi í Djibouti í Afríku …
Svein og Janne Jemtland á ferðalagi í Djibouti í Afríku á meðan allt lék í lyndi. Hjónabandi þeirra lauk á sviplegan og hörmulegan hátt þegar Svein skaut eiginkonu sína, 36 ára gamla tveggja barna móður, í höfuðið með hálfsjálfvirkri níu millimetra Makarov-skammbyssu þegar þau hjón deildu heiftarlega aðfaranótt 29. desember 2017. Ljósmynd/Twitter/Úr einkasafni

Framburður Svein Jemtland hefur ekki tekið miklum breytingum síðan þessi 48 ára gamli fyrrverandi útlendingahersveitarmaður hlaut 18 ára dóm í Héraðsdómi Hedmark í Hamar í Noregi að morgni 10. desember í fyrra. Reyndar hefur framburðurinn ekki breyst neitt nú þegar málið kemur fyrir Lögmannsrétt Eiðsifjaþings eftir að verjendur Jemtland áfrýjuðu því sama dag og dómur féll fyrir jól.

Jemtland hangir enn á því eins og hundur á roði að slysaskot hafi orðið konu hans, Janne Jemtland, að bana þegar þau deildu heiftarlega um nýtilkomna aðild eiginmannsins að stefnumótavefnum Tinder eftir heimkomu úr jólaboði aðfaranótt 29. desember 2017.

Svo atburðarásin sé rifjuð upp í fljótheitum varð eldri sonur þeirra hjóna, aðalvitni ákæruvaldsins við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, vitni að deilu foreldra hans sem lauk snögglega með háum hvelli úti fyrir aðaldyrum einbýlishúss þeirra í Brumunddal. Lík Janne Jemtland fannst um miðjan janúar í ánni Glommu og hafði verið fergt með rafgeymi sem bundinn var við það til að tryggja að það sykki. Krufning leiddi í ljós að dánarorsök Janne var drukknun svo hún var samkvæmt þeirri niðurstöðu enn á lífi eftir að hafa verið skotin í ennið af örstuttu færi með rússneskri níu millimetra Makarov-skammbyssu á dyraþrepi heimilis síns.

13 ára sonur lykilvitni

Svein Jemtland var hand­tek­inn 12. janú­ar í fyrra eft­ir að hafa orðið marg­saga í framb­urði sín­um af at­b­urðum eftir að þau hjón komu heim úr boðinu auk þess sem framburður eldri sonar þeirra hjóna, sem þá var 13 ára, olli straumhvörfum í rannsókn málsins og hefði mátt heyra saumnál detta í dómsal héraðsdómstólsins í Hamar þegar viðstaddir hlýddu á upptökur af frásögn barnsins af síðustu augnablikum móðurinnar. Svein einn sýndi engin svipbrigði og hélt fullkomnum pókersvip undir vitnisburði sonarins.

Hafði fjölskyldufaðirinn marghringt í lögreglu og gagnrýnt seinagang við leit að konu hans sem hann samviskusamlega tilkynnti horfna tæpum sólarhring eftir að hann að yfirgnæfandi líkindum skaut hana í höfuðið.

Gaf eiginmaðurinn þá skýringu við aðalmeðferð máls sem lyktaði með 18 ára dómi fyrir manndráp af ásetningi (n. forsettlig drap) að kona hans hefði dregið upp Makarov-skammbyssuna og haft í hótunum við hann. Átök hefðu orðið milli þeirra sem lyktaði með því að Janne heitin Jemtland skaut sjálfa sig í höfuðið þegar hjónin féllu fram af dyraþrepi húss síns í Brumunddal.

Þessa skýr­ingu sagði Leif Øren, skot­vopna­sér­fræðing­ur rann­sókn­ar­lög­regl­unn­ar Kripos, úti­lokaða þegar hann kom fyr­ir dóm­inn sem vitni í nóv­em­ber, eins og norskir fjölmiðlar og mbl.is greindu frá við aðalmeðferð málsins. Sagðist Øren varla hafa getað hleypt af byss­unni sjálf­ur vegna þess hve stíf­ur gikk­ur henn­ar var og nær ókleift hefði verið að beina byss­unni að höfði þess sem sjálf­ur héldi á henni og hleypa af skoti í þeirri stöðu: „Að beina þessu vopni að sjálf­um sér gef­ur mjög stutt skot­færi og um leið er mjög erfitt að taka í gikk­inn,“ sagði Øren í vitna­stúk­unni.

Kom vel undirbúinn fyrir dóminn

Iris Storås saksóknari fer áfram með ákæruvald fyrir Lögmannsréttinum og hefur sem fyrr takmarkaða trú á framburði ákærða svo sem glögglega kom fram er hún í lokaræðu sinni 27. nóvember 2018 krafði Trond Chri­stof­fer­sen héraðsdómara og meðdómendur hans um þyngstu refsingu, í þessu tilfelli 18 ár þar sem ákæruvaldið gat ekki sýnt fram á að um manndráp að yfirlögðu ráði (n. overlagt drap) hefði verið að ræða, það er að Jemtland hefði fyrir fram tekið ákvörðun um að ráða konu sína af dögum.

„Það sem við höf­um fengið að heyra um hug­ar­ástand [Svein] dag­ana eft­ir verknaðinn styður mynd okk­ar af kaldrifjuðum út­hugsuðum dráps­manni [n. en kald og kal­kul­erende draps­mann],“ voru loka­orð Storås í ræðu hennar 27. nóvember sem augljóslega sannfærði dóminn um að 18 ár teldist hæfileg refsing Svein Jemtland.

Hvarf Janne Jemtland jólin 2017 vakti hvort tveggja ótta og …
Hvarf Janne Jemtland jólin 2017 vakti hvort tveggja ótta og sorg um hátíðirnar. Engan grunaði eiginmann hennar, Svein Jemtland, um græsku sem virtist niðurbrotinn. Tæpu ári síðar hlaut hann 18 ára dóm fyrir að skjóta konu sína í höfuðið og varpa henni, enn á lífi, í kalda gröf árinnar Glommu. Hann heldur því enn fram fyrir Lögmannsrétti að víg hennar hafi verið hreint slys.

 

Dæmdi kom vel undirbúinn til réttarhaldanna við Lögmannsréttinn í dag og hélt því fram af yfirvegun að eftir meint slysaskot hefðu allar brýr verið brenndar að baki hans. „Ég kann enga skýringu á því hvers vegna hún gerði þetta,“ sagði hann og lýsti átökum þeirra hjóna á ný. „Ég fékk móðursýkiskast [Jeg ble helt hysterisk],“ sagði hann enn fremur. „Allt hrundi saman, það var engin leið til baka og núna skammast ég mín fyrir það,“ sagði Jemtland og bætti því við að versta martröðin hefði verið að ljúga að sonum sínum en hann útskýrði blóðslettur á dyraþrepi heimilisins fyrir þeim með því að móðir þeirra hefði farið á skíði um morguninn og dottið.

Á vitnaskrá Lögmannsréttar Eiðsifjaþings eru skráð 36 vitni næstu daga og hafa verjendur Jemtland, Ida Andenæs og Christian Flemmen Johansen, farið fram á það að lögregla endurtaki sviðsetningu málsins síðan haustið 2018 til að ganga úr skugga um að hvergi sé hallað á skjólstæðing þeirra.

Mbl.is mun fylgjast með annarri lotu málsins sem lét engan íbúa Brumunddal í Hedmark ósnortinn um hátíðirnar 2017.

NRK

VG

Aftenposten

Dagbladet

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert