„Rafmagnað“ andrúmsloft í Hong Kong

„Ólgan í Hong Kong nær miklu dýpra en þetta einstaka frumvarp. Þetta snýr líka að mannréttindum, svo sem málfrelsi og kynfrelsi,“ segir Pétur Hannes Ólafsson íbúi Hong Kong um mótmælaölduna þar.

Greint hefur verið frá gífurlega fjölmennum mótmælum á götum Hong Kong sem upprunalega hófust vegna lagafrumvarps sem leggja átti fram og hefði heimilað framsal brotamanna frá sjálfstjórnarsvæðinu til Kína.

Í kjölfar mótmælanna ákvað héraðsstjóri Hong Kong, Carrie Lam, að fresta framlagningu frumvarpsins. Það hefur þó ekki dugað til að lægja öldurnar því mótmælendur krefjast þess að hætt verði alfarið við að leggja frumvarpið fram. Þá eru margir sem krefjast þess að Lam segi af sér embætti. Yfir tvær milljónir manna mótmæltu nú á sunnudag sem er ríflega fjórðungur íbúa Hong Kong.

Þarf lítið til að sjóði upp úr

Pétur rekur fyrirtæki í Hong Kong og hefur búið þar í 14 ár. Hann gekk með mótmælendum á sunnudag og segir að það hafi verið mögnuð upplifun sem minnti á fótboltaleik þegar áhorfendur taka sig saman og kyrja saman einum rómi.

„Maður finnur spennuna, það þarf ekki mikið að gerast til að það kvikni bál. Það er rafmögnuð stemning í borginni,“ segir hann en tekur fram að mótmælin fari friðsamlega fram. Fólk meira að segja hreinsar upp eftir sig ruslið.

Þegar mótmælin byrjuðu upphaflega fyrir rúmlega viku síðan lýsti Carrie Lam þeim sem óeirðum (e. Riot) en ekki mótmælum (e. Protest). Það fór fyrir brjóstið á mörgum og hefur Lam síðan dregið þau orð sín til baka.

„Það eru engin ólæti og engin drykkja. Fólk er passíft meðal annars vegna þess að fólk vildi ekki gefa henni [Carrie Lam] tækifærið á að setja óeirðastimpil á mótmælin,“ útskýrir Pétur.

Samkynhneigðir óttast um stöðu sína

Pétur telur að óánægja og reiði íbúa liggi töluvert dýpra en marga grunar. Áhyggjur þeirra snúi ekki einungis að þessu einstaka frumvarpi eða framsali á afbrotamönnum heldur hafi aðdragandinn verið lengri. Þá segir hann málið einnig snúast um félagslega stöðu fólks sem og mannréttindi.

„Þetta er dýpra og stærra mál en margir vita,“ segir Pétur og útskýrir nánar:

„Þetta snýst líka um stöðu almennings og sérstaklega ungs fólks og hvaða möguleika það hefur til dæmis þegar kemur að því að eignast húsnæði eða bæta líf sitt. Möguleikarnir hafa minnkað til mikilla muna síðan árið 2007.“

Á skrifstofunni hjá Pétri vinna tveir samkynhneigðir menn sem berjast mjög hart gegn frumvarpinu enda telja þeir að lögleiðing þess geti haft mikil áhrif á þá. „Þetta áhrif á marga minnihlutahópa eins og til dæmis samkynhneigða, sem loksins eru að fá einhver réttindi í Hong Kong. Þetta frumvarp hefði verið stórt skref til baka í þeirri baráttu því Kína tekur hart á þeim hópi,“ bætir hann við.

Gífurlegur mannfjöldi kom saman á sunnudag.
Gífurlegur mannfjöldi kom saman á sunnudag. Ljósmynd/Pétur Hannes Ólafsson

Þöggun í Kína

Kínverjar styðja aftur á móti þétt við bakið á Carrie Lam og eru mjög fylgjandi frumvarpinu. Þar ríkir þöggun um mótmælin í Hong Kong.

„Ég fór til Kína í gær og þá heyrði ég í fyrsta skipti tilkynnt í hátalarakerfinu í bátnum sem ég var í að það væri bannað að koma með erlend dagblöð og fréttaefni inn í Kína. Starfsmenn sem vinna hjá mér í Kína höfðu ekki hugmynd um þessi stóru mótmæli í Kína þótt það séu ekki nema 50 kílómetrar á milli,“ segir Pétur.

Erfið staða Carrie Lam

Á blaðamannafundi sem Carrie Lam boðaði til fyrr í dag bað hún íbúa Hong Kong innilega afsökunar á hennar ábyrgð í málinu og þeirri ókyrrð sem skapast hefur. Hún lofaði því að frumvarpið myndi ekki verða sett aftur á dagskrá á yfirstandandi kjörtímabili sem lýkur um mitt næsta sumar.

Mörgum finnst þó að grunnt hafi verið á afsökunarbeiðninni og þykja hana hafa skort einlægni

„Ég held að þetta sé önnur eða þriðja afsökunarbeiðnin sem hún gefur út. Mig grunar að hún eigi lítið eftir en ég er ekki endilega viss um að fleiri mótmæli komi henni burt. Kannski hangir hún í embætti út kjörtímabilið en ég held hún nái ekki að gera mikið eftir þetta,“ segir Pétur.

Litið er á málið sem gríðarlegan ósigur fyrir Lam. Ekki einungis að hún hafi neyðst til að draga frumvarpið til baka heldur hvernig hún hefur hagað sér síðan mótmælin hófust. Hún gekk hart fram í upphafi og notaði stór orð sem virkuðu sem olía á eld mótmælenda. Þau orð hefur hún svo dregið til baka sem og frumvarpið sjálft.

Pétur Hannes Ólafsson.
Pétur Hannes Ólafsson. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert