Yfir 100 börn látin eftir neyslu ávaxta litka-trés

Veikt barn sem óttast er að hafi veikst af neyslu …
Veikt barn sem óttast er að hafi veikst af neyslu ávaxta litka-trés. AFP

Mótmæli brutust út við spítalann í Muzaffarpur í Bihar-ríki á Indlandi eftir að um 100 börn létust úr heilasjúkdómi sem er líklega tengdur ávöxtum litka-trés. Flest börnin sem létust eru yngri en 10 ára. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka þar sem fjölmörg börn eru veik og eru til meðhöndlunar á sjúkrahúsi. 

Yfirvöld eru sökuð um að bregðast ekki nógu hratt og vel við vandanum. Heilbrigðisráðherra landsins var harðlega gagnrýndur eftir blaðamannafund um ástandið eftir að hann spurði blaðamenn um úrslit krikketleiks Indlands og Pakistans. Áætlað er að Nitish Kumar, forsætisráðherra landsins, heimsæki sjúkrahús í dag þar sem flestir hafa látist. 

Sjúkdómurinn lýsir sér meðal annars með því að blóðsykurinn fellur hratt, hitinn verður hár og lömun breiðist út. Frá árinu 1995 hefur sjúkdómurinn komið upp á hverju ári þegar litka-tré ber ávexti sína. 

Sjúkdómurinn kemur einkum upp í fátækustu héruðum landsins þar sem svöng börn ráfa um í leit að æti og freistast til að leggja sér ávextina til munns. 

Árið 2014 létust 150 börn og hafa aldrei jafn mörg börn látist af völdum sjúkdómsins. Árlega deyja nokkrir tugir barna vegna þessa. Frekari rannsókna er þörf á sjúkdómnum.  

Börn freista þess að borða ávexti litka-trés.
Börn freista þess að borða ávexti litka-trés. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert