Grunaður um að hafa myrt þýskan stjórnmálamann

Walter Lübcke, sem var myrtur 2. júní, hafði talað um ...
Walter Lübcke, sem var myrtur 2. júní, hafði talað um að þeir sem væru á móti flóttamönnum mættu sjálfir yfirgefa Þýskaland. Hann var frjálslyndur þegar kom að þeim málaflokki sem sagt. Hann var atkvæðamikill í bæjarstjórn í Hassel fyrir kristilega demókrata. AFP

Það var 2. júní sem sonur hins þýska Walter Lübcke gekk fram á föður sinn lífshættulega særðan eftir að hafa verið skotinn í höfuðið í garðinum heima. Hann gerði lögreglu viðvart og faðir hans var fluttur á sjúkrahús í snartri.

Þar lést hann skömmu síðar.

Ekkert á vettvangi benti til sjálfsmorðs, var sagt í fyrstu fréttum af málinu. Það reyndist rétt, um er að ræða morð, og ekki á almennum borgara, heldur á stjórnmálamanni.

Walter Lübcke, 65 ára, var forseti bæjarstjórnar fyrir hönd kristilegra demókrata, flokks Angelu Merkel kanslara, í þorpinu Hassel í Saxlandi-Anhalt, 70 kílómetra norður af Hanover. Í pólitík sinni hafði hann tekið upp hanskann fyrir innflytjendum og stutt stefnu Merkels í þeim efnum. Talað er um að þessi viðhorf kunni að hafa leitt til morðsins.

Sá sem grunaður er um að hafa banað Lübcke er kallaður Stephan E. í þýskum miðlum og ef rétt reynist að hann hafi verið að verki, gæti morðið verið fyrsta pólitíska morðið í Þýskalandi í marga áratugi. Stephan E. er talinn vera hægriöfgamaður.

Innanríkisráðherra Þýskalands var á blaðamannafundi um málið í gær. „Tilræði frá hægriöfgamanni við leiðandi fulltrúa ríkisvaldsins hringir viðvörunarbjöllum og beinist gegn okkur öllum,“ sagði Seehofer. Því er ekki slegið á fast að um slíkt sé að ræða en grunurinn er fyrir hendi.

„Út frá því sem við vitum núna, verðum við að ...
„Út frá því sem við vitum núna, verðum við að ganga út frá því að hinn grunaði sé hægriöfgamaður og að glæpurinn sé framinn á slíkum grundvelli,“ sagði Horst Seehofer innanríkisráðherra Þýskalands á blaðamannafundi. AFP

Hinn grunaði er tengdur hægriöfgaöflum

Hinn grunaði er Stephan E. Hann er 45 ára Þjóðverji sem fram til handtökunnar síðasta laugardag bjó með konu sinni og börnum í Kesel. Hann hefur verið virkur í öfgahægrisamtökum, að sögn Spiegel, á borð við NSU, Combat 18 og NPD. Auk þess hefur hann ítrekað komist í kast við lögin, meðal annars vegna sprengjuárásar fyrir utan heimili fyrir hælisleitendur árið 1993. Fyrir það sat Stephan inni.

Síðustu ár hefur hann ekki verið undir sérstöku eftirliti að sögn stjórnvalda en þó sagði Thomas Haldenwang varnarmálafulltrúi á blaðamannafundinum að hann hefði verið virkur í hægriöfgaumhverfi ýmsu frá því á 8. áratugnum. 

Ríkissaksóknari tók yfir rannsókn málsins á mánudaginn, nokkuð sem gaf strax til kynna að það risti dýpra en morð sem á sér stað í þorpi og ekki söguna meir. Seehofer ráðherra sagði að „út frá því sem við vitum núna, verðum við að ganga út frá því að hinn grunaði sé hægriöfgamaður og að glæpurinn sé framinn á slíkum grundvelli“.

Lübcke hafði talað vel um flóttamenn

Dagblaðið Tageszeitung talar um að ef rétt reynist að Stephan E. tilheyri nýnasistahópnum Combat 18 hafi yfirvöld sofnað á verðinum og spyrja spurninga um það hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis í eftirliti þeirra með ógninni frá öfgahægrihópum.

„Ásökunin er á þessa leið: Að maðurinn hafi myrt Lübcke vegna vinsamlegrar afstöðu hans til flóttamanna. Ástæðan var sem sagt hægriöfgapólitísk,“ er fullyrt í Tageszeitung.

Mynd af Walter Lübcke sem sýnd var í jarðarförinni hans ...
Mynd af Walter Lübcke sem sýnd var í jarðarförinni hans 13. júní. Hann var skotinn í höfuðið við heimili sitt 2. júní. Reynt er að komast til botns í því hvort morð hans hafi verið pólitísks eðlis. Ef svo var, er það hið fyrsta sinnar tegundar í marga áratugi í Þýskalandi. AFP

Lübcke hafði um hríð, áður en hann var myrtur, fengið hatursfull skilaboð á netinu frá hægriöfgahópum. Á þessu ári hafði Erika Steinbach, fyrrverandi samflokkskona Lübcke, sem Spiegel segir núna vera bundna þjóðernispopúlistaflokknum AfD nánum böndum, deilt myndbandi af ummælum Lübcke þar sem hann vísaði þeim, sem hötuðu flóttamenn, úr landi, og sagði slík viðhorf ekki eiga heima í Þýskalandi. 

Þegar Lübcke var myrtur fóru hægriöfgamenn á netinu mikinn. Spiegel talar um að eftir dauða Lübcke hafi hatursfull og meinfýsin ummæli af hálfu öfgahægrisins farið á kreik. 

mbl.is
Hornborð til sölu ódýrt.
Hornborð 65x65 cm. Hæð 45 cm. Vel með farið kr. 900.- Er í Garðabæ s: 8691204...
Viltu vita hvað er framundan ?
Segi þer það sem þeir sem farnir eru segja mer um framtíð þína. Bollar og tar...
Arkitektar og verkfræðingar: Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4 til leigu
Til leigu er 230 fermetra skrifstofurými í austurenda á 5. og efstu hæð Bolholts...
Ertu komin í saumaskap ?
Nýjar og notaðar saumavélar í úrvali. Nýjar vélar með 3 ára ábyrgð. Notaðar véla...