Lést við að framkvæma töfrabragð

Chanchal Lahiri á leið ofan í ána á laugardag.
Chanchal Lahiri á leið ofan í ána á laugardag. AFP

Indverska lögreglan hefur fundið líkamsleifar töframanns sem ætlaði að endurtaka fræga brellu Harrys Houdini með því að fara bundinn og hlekkjaður ofan í á. Töframaðurinn, Chanchal Lahiri, var látinn síga ofan í á í borginni Kolkata á laugardag en hann kom ekki aftur upp úr vatninu.

Lahiri, sem var fertugur, sagði í samtali við fjölmiðla áður en hann reyndi að framkvæma brelluna að honum hefði tekist að framkvæma svipaðan hlut áður. 

Víðtæk leit hófst að Lahiri eftir að ekkert hafði sést til hans um hálftíma eftir að hann var látinn síga ofan í ána. 

„Ef ég get opnað hlekk­ina verða það töfr­ar, en ef ekki verður það sorg­legt,“ sagði töframaðurinn skömmu áður en hann drukknaði.

Fram kemur í frétt CNN að lögregla hafi fundið líkamsleifar Lahiri á mánudagskvöld, um tveimur kílóetrum frá staðnum þar sem hann fór ofan í ána. Bróðir hans bar kennsl á líkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert