Mistök fréttaþular vekja athygli

Mohamed Morsi hafði verið í gæsluvarðhaldi í sex ár þegar …
Mohamed Morsi hafði verið í gæsluvarðhaldi í sex ár þegar hann lést á mánudag. AFP

Andlát fyrrverandi þjóðhöfðingja myndi verða helsta fréttamálið í flestum löndum. Það var þó ekki raunin í Egyptalandi þar sem Mohammed Morsi, fyrrverandi forseti landsins sem var hrakinn frá völdum af her landsins fyrir sex árum, hné niður í réttarsal á mánudag og lést.

Morsi hafði ný­lokið 20 mín­útna löng­um vitn­is­b­urði í máli þar sem hann er ákærður fyr­ir njósn­ir en hann var 67 ára gamall.

Lítið var fjallað um skyndilegt fráfall hans í egypskum fjölmiðlum. Helsta fréttaefni dagblaða landsins var Afríkukeppnin í knattspyrnu, sem fer fram þar í landi og hefst á föstudag. Lítillega var fjallað um andlát Morsi á síðum sem venjulega fjalla um glæpamál.

Ríkissjónvarpsstöð Egyptalands minntist ekki einu orði á að Morsi, fyrsti lýðræðislega kjörni þjóðhöfðingi landsins, væri fyrrverandi forseti. Í staðinn var hann einungis nefndur fullu nafni.

Umfjöllunin var heldur snubbótt, ekki nema 42 orð á arabísku:

Mohammed Morsi lét lífið í gær í réttarsal. Hinn látni bað dómara um að fá að tjá sig og fékk leyfi til þess. Eftir að dómhaldi var slitið hné hann niður og lét lífið. Líkið var flutt á spítala og nauðsynlegar ráðstafanir verða gerðar,“ kom fram í fréttatímanum.

Fjallað er um á Twitter að allar fréttastöðvar landsins hafi fengið sama textann sendan frá stjórnvöldum. Fréttaþulur Extra News-stöðvarinnar endaði sinn fréttaflutning á því að gera þau mistök að segja að skeytið hafi verið sent úr Samsung-snjalltæki:

Samkvæmt stjórnarandstæðingum var fréttatilkynningin um andlát fyrrverandi forsetans send til fréttastöðva frá stjórnvöldum í gegnum Whatsapp-forritið.

Í kjöl­far vald­aráns hers­ins 2013 fóru egypsk yf­ir­völd í her­ferð gegn mús­limska bræðralag­inu, en Morsi var meðal ann­ars ákærður fyr­ir að hafa lekið rík­is­leynd­ar­mál­um Egypta­lands og Kat­ar til bræðralags­ins, hafði verið í gæsluvarðhaldi síðan.

Frétt BBC.

mbl.is