Sæðisgjafi er löglegur faðir dóttur sinnar

Maðurinn og konan voru vinir og ákváðu að eignast saman …
Maðurinn og konan voru vinir og ákváðu að eignast saman barn. Síðar slettist upp á vinskapinn. Ljósmynd/Pexels

Ástralskur sæðisgjafi er löglegur faðir 11 ára gamallar dóttur sinnar þar sem sá skilningur var lagður til grundvallar að hann yrði til staðar í hennar lífi, samkvæmt nýföllnum dómi Hæstaréttar íÁstralíu. BBC greinir frá. 

Maðurinn barðist gegn því að líffræðileg móðir barnsins og eiginkona hennar flyttu til Nýja-Sjálands með stúlkuna. Í fyrri dómsstigum féll dómur konunum í vil og hafði maðurinn engan rétt til að koma í veg fyrir búferlaflutningana. Hæstiréttur sneri því við dómi héraðsdóms.

Sérfræðingar segja dóminn fordæmisgefandi og víkki út hugtakið yfir því hverjir teljast til löglegra foreldra í Ástralíu. 

Lögmaður mannsins segir að nú sé fimm ára baráttu mannsins fyrir að vera viðurkenndur sem faðir dóttir sinnar lokið. Dómurinn er sérstaklega þýðingamikill fyrir „hvern einasta föður sem ákveður að ala barnið sitt upp með vini sínum en eru ekki í sambandi að öðru leyti,“ segir lögmaður hans. 

Forsagan er sú að karlmaðurinn og barnsmóðir hans voru vinir. Árið 2006 ákveða þau í sameiningu að hann yrði sæðisgjafi svo þau gætu búið til barn. Nokkrum árum síðar slettist upp á vinskapinn. Samkvæmt lögmanni hennar vildi hún ekki að hann yrði viðurkenndur sem barnsfaðirinn. Þrátt fyrir það var hann skráður sem faðir dóttur sinnar í fæðingarskýrslu hennar og hún kallaði hann pabba.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert