Sækja fjóra til saka vegna MH17

Wilber Paulissen á blaðamannafundinum í dag.
Wilber Paulissen á blaðamannafundinum í dag. AFP

Alþjóðlegt teymi rannsakenda sem unnið hefur að rannsókn á árásinni á flugvél Malaysian Airlines yfir austurhluta Úkraínu árið 2014 hefur farið fram á handtöku fjögurra manna sem taldir eru bera ábyrgð á ódæðinu, þriggja Rússa og eins Úkraínumanns. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Hollandi í dag.

Rannsóknarnefndin, sem leidd er af Hollendingum, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Rússarnir Igor Girkin, Sergey Dubinskíj og Oleg Pulatov auk Úkraínumannsins Leonid Kharchenko, beri ábyrgð á því að BUK Telar-flugskeytið sem grandaði flugvélinni hafi verið flutt yfir landamæri Rússlands til Úkraínu.

Nefndin hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að flugskeytið sem grandaði flugi MH17, með þeim afleiðingum að 298 manns létust, væri rússneskt og að 53. herdeild rússneska landhersins hefði haft það til umráða. Því hafa rússnesk yfirvöld staðfastlega neitað.

 „Í dag sendum við út alþjóðlegar handtökuskipanir á hendur fyrstu sakborningunum sem við ætlum að sækja til saka,“ sagði Wilbert Paulissen, yfirmaður hjá hollensku lögreglunni á blaðamannamannafundi.

Mennirnir fjórir sem rannsóknarnefndin segir ábyrga fyrir því að flugskeytið …
Mennirnir fjórir sem rannsóknarnefndin segir ábyrga fyrir því að flugskeytið var fært frá Rússlandi og yfir á yfirráðasvæði uppreisnarmanna í Austur-Úkraínu. AFP

Ættingjar fórnarlamba árásarinnar hafa samkvæmt frétt AFP um málið tjáð fjölmiðlum að réttarhöld yfir mönnunum fjórum muni hefjast í mars á næsta ári, en líklegt þykir að þau fari fram að þeim fjarstöddum, þar sem Rússar framselja ekki borgara sína í hendur erlendra yfirvalda. Þá segja rannsakendur að ekki sé vitað hvar Úkraínumaðurinn Kharchenko sé staddur.

Einn grunaðra sver af sér sakir

Igor Girkin, sem nú hefur verið ákærður fyrir sinn þátt í ódæðinu, neitaði því í samtali við rússnesku fréttaveituna Interfax í dag að uppreisnarmenn í Austur-Úkraínu hefðu átt nokkurn þátt í því að skjóta vélina niður.

„Ég get bara sagt að uppreisnarmennirnir skutu ekki niður Boeing-vélina,“ sagði Girkin við Interfax.

Igor Girkin, einnig þekktur sem Igor Strelkov, hefur verið leiðtogi …
Igor Girkin, einnig þekktur sem Igor Strelkov, hefur verið leiðtogi herafla uppreisnarmanna í Austur-Úkraínu. AFP
mbl.is