Verð á olíu hækkar í kjölfar tísts Trump

Rúm­ur þriðjung­ur af allri hrá­ol­íu, sem flutt er með skip­um …
Rúm­ur þriðjung­ur af allri hrá­ol­íu, sem flutt er með skip­um í heim­in­um, fer um Horm­uz-sund, þar sem dróni á veg­um bandaríska hers­ins var skot­inn niður af Írön­um í dag. AFP

Verð á olíu hefur hækkað um sex prósent í dag í kjölfar fregna af því að dróni á veg­um bandaríska hers­ins var skot­inn niður af Írön­um. Donald Trump Bandaríkjaforseti brást við á Twitter og sagði Írana hafa gert mikil mistök.

Drón­inn var skot­inn niður með eld­flaug ír­anska hers­ins þar sem hann var í alþjóðlegri loft­helgi yfir Horm­uz-sundi. Írönsk yf­ir­völd segja aft­ur á móti að drón­inn hafi verið skot­inn niður í ír­anskri loft­helgi. Rúm­ur þriðjung­ur af allri hrá­ol­íu, sem flutt er með skip­um í heim­in­um, fer um Horm­uz-sund, m.a. um 80% af allri olíu sem flutt er til Jap­ans.

Frá tísti Trumps hefur tunna af West Texas Intermediate-hráolíu hækkað um 6,03 prósent og kostar tunnan rúmlega 57 dollara, eða sem nemur rúmum 7.000 krónum.

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hefur gagnrýnt framgöngu forsetans í milliríkjasamskiptum sínum við Íran og segir hann auka líkurnar á hernaðarátökum, sem er einmitt talin ástæða hækkunar á olíuverði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert