Total segir upp 200 í Esbjerg

Franska fyrirtækið Total hefur ákveðið að segja upp 13,3% starfsmanna …
Franska fyrirtækið Total hefur ákveðið að segja upp 13,3% starfsmanna í Danmörku. AFP

Franski olíurisinn Total tilkynnti í dag mikla skipulagsbreytingu og að 200 starfsmönnum fyrirtækisins í Esbjerg í Danmörku yrði sagt upp eða rúmlega 13% af þeim 1.500 sem starfa hjá Total í landinu. Þetta kemur fram í umfjöllun dagblaðsins Jydske Vestkysten.

Uppsagnirnar koma í kjölfar þess að framleiðsla á Tyra-gassvæðinu í Norðursjó hefur verið tímabundið minnkuð um 40% vegna umfangsmikilla breytinga á borpöllum fyrirtækisins og ná til ráðgjafa á skrifstofum Total í Esbjerg og starfsmanna sem sinna rekstur borpalla.

Total, sem varð stærsti framleiðandi gas og olíu í Danmörku eftir að fyrirtækið keypti Maersk Oil árið 2017, stefnir að því að hefja framleiðslu að fullu á ný árið 2022.

„Þegar vinnslu á Tyra-svæðinu verður komið á munum við ekki þurfa sama starfsmannafjölda og við vorum með vegna nýstárlegra lausna og nýrrar tækni, sem er liður í hinu glænýja Tyra,“ er haft eftir Patrick Gilly, forstjóri Total í Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert