Brexit-samkomulagi verður ekki breytt

Theresa May lætur af embætti forsætisráðherra í sumar.
Theresa May lætur af embætti forsætisráðherra í sumar. AFP

Leiðtogar Evrópusambandsins vara þann sem tekur við sem forsætisráðherra Bretlands við því að ekki sé í boði að hefja nýjar samningaviðræður um útgöngu Breta úr ESB. Skilnaðarsamningum verði ekki breytt.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði við fréttamenn í dag að aðildarríkin 27 (öll fyrir utan Bretland) hafi samþykkt að útgöngusamkomulagið verði ekki endurskoðað.

Kosið verður á milli Boris Johnsons, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, og Jeremy Hunts utanríkisráðherra í lokaumferð leiðtogakjörs Íhaldsflokksins þegar skráðir félagar í flokknum greiða atkvæði í næsta mánuði.

Þetta varð ljóst eftir fimmtu og síðustu atkvæðagreiðsluna í þingflokki íhaldsmanna í leiðtogakjörinu síðdegis í gær. Johnson fékk þá 160 atkvæði, Hunt 77 og Michael Gove umhverfisráðherra 75.

Í fjórðu atkvæðagreiðslunni í gærmorgun fékk Sajid Javid innanríkisráðherra fæst atkvæði, 34, og féll út úr leiðtogakjörinu. Gove fékk þá næstflest atkvæði, 61, tveimur fleiri en Jeremy Hunt sem hafði verið í öðru sæti í fyrstu þremur atkvæðagreiðslunum. Johnson fékk 157 atkvæði í gærmorgun og bætti við sig þremur í síðustu atkvæðagreiðslunni.

Boris Johnson er álitinn sigurstranglegri en Jeremy Hunt þar sem hann nýtur mikilla vinsælda meðal félaga flokksins. Gert er ráð fyrir því að leiðtogaefnin haldi alls sextán fundi saman víða um Bretland og etji kappi í tvennum sjónvarpskappræðum áður en félagar í flokknum greiða atkvæði í póstkosningu. Gert er ráð fyrir að úrslit leiðtogakjörsins liggi fyrir í vikunni sem hefst 22. júlí og sigurvegarinn verði þá forsætisráðherra í stað Theresu May sem ákvað að segja af sér vegna deilunnar um Brexit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert