Flugmiði á 126 krónur

AFP

Mexíkóska flugfélagið Volaris ætlar að bjóða flóttafólki, sem ekki á möguleika á að fá að fara yfir landamæri Bandaríkjanna, upp á flugmiða heim fyrir einn Bandaríkjadal, 126 krónur. Um er að ræða flugferðir til Kosta Ríka, El Salvador og Gvatemala en gríðarlegur fjöldi fólks kemur frá ríkjum Mið-Ameríku til Mexíkó á leið til Bandaríkjanna.

Á Twitter-síðu flugfélagsins segir að þetta sé gert til þess að styðja við heimsendingar flóttafólks. Tilboðið gildir til 30. júní og verður flogið frá flugvöllum Tijuana og Ciudad Juarez, sem eru skammt frá landamærum Bandaríkjanna. Eins er flogið frá Guadalajara og Mexíkóborg.

Flugfarþegar verða að vera reiðubúnir til þess að þiggja næsta lausa flugsæti til þess að eiga möguleika á svo ódýru fargjaldi. Skattar eru ekki innifaldir en flugvallaryfirvöld í Mexíkóborg innheimta 45 Bandaríkjadali í skatta af flugfarþegum í millilandaflugi.

Fullorðið fólk verður að leggja fram persónuskilríki og börn vegabréf eða fæðingarvottorð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert