„Leggið niður sverðið og takið upp símann“

Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona Demókrataflokksins, segir Trump að „setja niður riddarasverðið …
Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona Demókrataflokksins, segir Trump að „setja niður riddarasverðið og taka upp símann“ til að leysa úr þeirri spennu sem hefur stigmagnast milli Bandaríkjanna og Írans upp á síðkastið. AFP

Bandaríska þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez hvetur ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta til að „leggja niður riddarasverðið og taka upp símann.“

Vísar hún þar í viðbrögð Trump eftir að bandarískur njósnadróni var skotinn niður yfir Horm­uz-sundi í vikunni. Trump sagði í færslu á Twitter að Íranar væru að gera „mjög mikil mistök“.

Ocasio-Cortez, sem situr á þingi fyrir Demókrataflokkinn og er jafnframt yngsta konan á þingi, hefur verið afar gagnrýnin á stefnu forsetans, jafnt í innanríkis- sem utanríkismálum. Þegar fréttastofa CNN óskaði eftir viðbrögðum frá Ocasio-Cortez vegna „afgreiðslu mála í Íran“ sagði þingkonan: „Ég held hún [Bandaríkjastjórn] sé að ýta undir hernaðarátök sem er algerlega ábyrgðarlaust.“

Banda­rísk­ir fjöl­miðlar greindu frá því í nótt að Trump hafi heim­ilað hefnd­araðgerðir gagn­vart Íran í gær en síðan skipt um skoðun.

Ekki er ljóst hvort stjórnvöld í Íran séu tilbúin að leita diplómatískra lausna við bandarísk stjórnvöld. Æðsti leiðtogi Írans, Sayyid Ali Hosseini Khamenei, sagði eftir fund sinn í síðustu viku með Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, að hann léði ekki máls á neinum viðræðum við stjórn Trumps. Fundurinn, sem var haldinn í því skyni að reyna að hafa milli­göngu um samn­ingaviðræður milli Banda­ríkj­anna og Írans, virðist því hafa verið dauðadæmd frá upp­hafi.

Skilaboð Ocasio-Cortez eru hins vega skýr: „Ríkiserindrekstur er það sem veitir okkur frið og stöðugleika - ekki stríð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert