Sakfelld fyrir að senda syni sínum peninga

Frá Sýrlandi.
Frá Sýrlandi. AFP

Foreldrar Jack Letts, 23 ára Breta sem gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið í Sýrlandi þegar hann var 18 ára hafa verið fundin sek um að fjármagna hryðjuverk. Þau sendu syni sínum peninga til Sýrlands.

Sally Lane og John Letts, for­eldr­ar Letts sem kallaður hefur verið „Ji­hadi Jack,“ eiga yfir höfði sér fangelsisvist vegna málsins.

Réttað var yfir foreldrunum vegna þess að þau sendu, eða reyndu að senda, samtals 1.723 pund, jafnvirði 273.000 króna, til sonar síns í Sýrlandi. Sonur þeirra er nú fangi í Sýrlandi.

Hjónin hafa sagt að þau hafi einfaldlega verið að reyna að aðstoða son sinn. Þau segja það klikkun að aðstoð við soninn jafngildi því að fjármagna hryðjuverk.

Saksóknarar sögðu að þau hefðu hunsað viðvaranir lögreglu sem sögðu þeim að hægt yrði að nota peningana til að fjármagna hryðjuverkastarfsemi. 

Jack Letts glímir við áráttu- og þrá­hyggjurösk­un en hann sagði foreldrum sínum fyrir fimm árum síðan að hann ætlaði til Jórdaníu að læra arabísku.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert