Enginn bjór fyrir nýnasista

Hér koma lögreglumennirnir bjórkútunum fyrir í trukki. Þeir tóku alls …
Hér koma lögreglumennirnir bjórkútunum fyrir í trukki. Þeir tóku alls 4200 lítra af bjór af nýnasistunum. Ljósmynd/Lögreglan í Görlitz

Þýskir öfgahægrimenn urðu vonsviknir þegar lögreglan mætti á tónlistarhátíðina sem þeir voru að halda og tók af þeim allan bjórinn. Þeir sögðust ætla að skemmta sér friðsamlega, dómari tók það ekki gilt og gaf lögreglu leyfi til þess að leggja hald á áfengið, því hættulegt kynni að reynast að leyfa þeim að drekka á svona samkomu.

Samkoman er nýnasísk. Hátt í 750 nýnasistar ætluðu að halda tónlistarhátíðina „Sverð og skjöld“ hátíðlega um helgina. Þar stíga öfgahægrirokksveitir á stokk og skemmta nýnasistum og öðrum sem leggja leið sína á svæðið. Í fyrra var haldin hátíð á svæðinu á afmælisdegi Adolf Hitler. Þangað komu allt að 1000 manns.

Mynd frá hátíðinni í fyrra þegar allt að 1000 nýnasistar …
Mynd frá hátíðinni í fyrra þegar allt að 1000 nýnasistar komu saman á afmæli Adolf Hitler. Í ár fá þeir engan bjór. Skjáskot/Spiegel TV

Hátíðin verður haldin í ár en það verður edrú. Lagt var hald á 4200 lítra af bjór, kútunum skellt upp í lögreglubíl og á brott. Og þetta gerðist eftir að dómari í Görlitz skar úr um að svo skyldi verða. „Hið augsýnilega árásargjarna eðli samkomunnar yrði tvímælalaust magnað upp ef áfengisneysla kæmi til og þar með yrði hættan aukin á ofbeldisfullum átökum,“ sagði í úrskurðinum.

Aðstandendur hátíðarinnar þvertóku að vísu fyrir allt ofbeldi og sögðu hátíðina fram að þessu hafa farið friðsamlega fram. Og á þeim grundvelli óskuðu þeir vitaskuld eftir að bjórinn yrði ekki tekinn af þeim. Í myndböndum frá vefútgáfu Spiegel má þó sjá átök sem blaðamenn, sem leitast hafa við að segja frá fundum þessara manna, lentu í í fyrra.

Á meðan fleiri en 750 hugðust og hyggjast enn mæta á hátíðina eru mótmæli við henni skipulögð í sama saxneska bæ, Ostritz. Í dag verður kjörorðið á þeim mótmælum „hægrið rokkar ekki“ sem á þýsku stuðlar betur: „Rechts rockt nicht.“ Ostritz, bærinn þar sem þetta allt á sér stað, er einn austasti bær í Þýskalandi. Það er í austurhluta Þýskalands sem svona hugmyndafræði á meira fylgi að fagna en í vesturhlutanu, þó þar gæti hennar líka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert