Morð veki áhyggjur af öfgahægristefnu

Angela Merkel sagði að morðið á Lübcke væri „ekki aðeins …
Angela Merkel sagði að morðið á Lübcke væri „ekki aðeins hrottafenginn verknaður, heldur einnig áminning til okkar allra um að vera vakandi fyrir hvers kyns tilhneigingu til öfgahægristefnu.“ AFP

„Ríkisstjórnin tekur þetta mjög, mjög alvarlega,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari við fjölmiðla um morðið á stjórnmálamanninum Walter Lübcke, sem grunur leikur á um að hafi verið myrtur af öfgahægrimanni.

Stephan E. er í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa myrt flokksbróður Merkel, sem var í héraðsstjórnmálum í Saxlandi-Anhalt. Ef rétt reynist að Stephan E. hafi verið að verki er talið að morðið hafi verið framið af pólitískum ástæðum, nefnilega vegna þess að Lübcke var hliðhollur flóttamönnum og hælisleitendum.

Í Wolfhagen, nærri Kassel heimabæ Lübcke, var haldin minningarathöfn um …
Í Wolfhagen, nærri Kassel heimabæ Lübcke, var haldin minningarathöfn um manninn. „Gegn öfgahægristefnu“ - „Fyrir friðinn í samfélaginu, gegn hatri, ofbeldi og útlendingahatri.“ AFP

„Þetta er ekki aðeins hrottafenginn verknaður, heldur einnig áminning til okkar allra um að vera vakandi fyrir hvers kyns tilhneigingu til öfgahægristefnu,“ sagði hún.

Merkel sagði að upplýsa þyrfti um málið algerlega án þess að leyfa því að vera tabú. Það væri mikilvægt fyrir traust á stofnunum samfélagsins. „Annars missum við allan trúverðugleika. Og það er auðvitað andstæðan við það sem okkur vantar, nefnilega traust,“ sagði hún.

Umræða um málið hefur aukist verulega í Þýskalandi síðustu daga, eftir því sem frekari upplýsingar um meintan morðingja líta dagsins ljós. Eins og sú staðreynd að á ákveðnum tímapunkti hafði Stephan E. kallað Lübcke „svikara þjóðar sinnar“ (þ. Volksverräter), eins og kemur fram hjá Der Spiegel. Einnig hefur Der Spiegel heimildir fyrir því að Lübcke hafi verið á lista hjá Nationalsozialistischer Untergrund (NSU).

Innanríkisráðherra Þjóðverja, Horst Seehofer, hefur talað um að spýta þurfi í lófana í baráttunni gegn öfgahægrimönnum. Þróuin sé stórhættuleg og stefnan sé orðin að raunverulegri ógn. Merkel varpaði þá fram í ávarpi sínu vangaveltu um það hvort tilræðið á Lübcke tengist morðunum tíu sem þjóðernishreyfing nasista (NSU) framdi á árunum 2000-2007.

Útför Walter Lübcke, sem dó 2. júní eftir að hann …
Útför Walter Lübcke, sem dó 2. júní eftir að hann var skotinn í höfuðið fyrir utan heimili sitt. AFP

Að vonum er morðið hitamál í sambandslandinu Saxlandi-Anhalt í Þýskalandi, þar sem það var framið. Viðræður standa yfir um myndun meirihluta í svæðisstjórninni og þar hafa kristilegir demókratar, flokkur Merkel og Lübcke, ekki útilokað samstarf við AfD, þjóðernispopúlistaflokkinn sem hafa haft öllu neikvæðara viðhorf gagnvart flóttamönnum en Lübcke, sem allt virðist benda til að hafi verið myrtur fyrir skoðanir sínar þar á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert