Tilbúinn að verða „besti vinur“ Írans

Trump segir að Bandaríkjamenn muni aldrei gera Írönum kleift að …
Trump segir að Bandaríkjamenn muni aldrei gera Írönum kleift að þróa kjarnavopn og kallar eftir því að Íran falli frá öllum slíkum áformum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í dag að hann væri tilbúinn til þess að verða „besti vinur“ Írans og að Persaflóaríkið gæti orðið „vellauðugt“ ef það lofaði að þróa engin kjarnavopn.

Þessi orð lét Trump falla fyrir utan Hvíta húsið í dag, áður en hann hélt til skrafs og ráðagerða varðandi stöðuna í Íran á sveitasetri forsetans, Camp David.

Mikil spenna hefur verið á milli ríkjanna tveggja í vikunni eftir að Íranir skutu niður eftirlitsflygildi Bandaríkjahers, en ríkin tvö greinir á um það hvar nákvæmlega dróninn var skotinn niður – hvort hann hafi verið á flugi yfir alþjóðlegu hafsvæði eða í írönsku loftrými.

Trump segir að Bandaríkjamenn muni aldrei gera Írönum kleift að þróa kjarnavopn og kallar eftir því að Íran falli frá öllum slíkum áformum.

„Þegar þeir samþykkja það, þá munu þeir verða vellauðugt ríki. Þeir verða svo ánægðir og ætla að verða besti vinur þeirra. Ég vona að það gerist,“ sagði forsetinn við fjölmiðla áður en hann hélt af stað til Camp David.

Hann lýsti því einnig yfir að frekari efnahagslegar refsiaðgerðir á hendur Írönum væru í pípunum, án þess að skýra það nánar.

Trump greindi frá því í gær að hann hefði ákveðið að hætta við loftárásir á Íran á síðustu stundu, þar sem þær árásir sem hernaðarlegir ráðgjafar hans höfðu skipulagt hefðu valdið of miklu manntjóni. AFP greinir frá því að blaðamenn fyrir utan Hvíta húsið hafi látið spurningum um samskiptin við Íran rigna yfir forsetann í dag.

Trump segist tilbúinn að verða besti vinur Írans.
Trump segist tilbúinn að verða besti vinur Írans. AFP

„Ég er maður með hyggjuvit“

Trump sagði við blaðamenn í dag að nú væru einhverjir þeir sem áður hefðu kallað hann stríðsæsingamann að kalla hann hið andstæða, friðsæla dúfu, eftir að hann afturkallaði árásarskipunina.

„Ég held að ég sé hvorugt, ef á að segja ykkur sannleikann. Ég er maður með hyggjuvit, og það er það sem við þurfum meira af í þessu landi, hyggjuvit,“ sagði forsetinn og bætti því við að ef að yfirvöld í Íran myndu „haga sér illa“ yrði það „mjög, mjög“ slæmt fyrir þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert